Ætla að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum

Oddvitar allra kjördæma fyrir Pírata í dag við kynningu kosningaáherslna …
Oddvitar allra kjördæma fyrir Pírata í dag við kynningu kosningaáherslna flokksins. mbl.is/Unnur Karen

Píratar leggja áherslu á loftslagsmál, ný mælitæki við velsæld innan hagkerfa og róttækar breytingar í sjávarútvegi fyrir komandi alþingiskosningar, þann 25. september. 

Píratar kynntu stefnu sína í beinu streymi í dag þar sem oddvitar allra kjördæma kynntu nokkur áhersluatriði. Kosningastefna Pírata ber yfirskriftina Lýðræði – ekkert kjaftæði. 

Framtíðin hitt eða framtíðin þetta

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, skaut léttum skotum á Framsóknarflokkinn þegar hún sagði: „Þetta eru áskoranir samtímans – ekki framtíðar. Við erum komin á þann tímapunkt í sögunni að það þýðir ekki fyrir stjórnmálamenn að tala um framtíðin hitt, framtíðin þetta eða að hún ráðist á miðjunni. Loftslagsbreytingar eru farnar að hafa mikil áhrif. Sjálfvirknivæðingin er hafin. Ef ekki á illa að fara þá þurfum við aðgerðir, núna.“

Slagorðið Framtíðin ræðst á miðjunni hefur verið áberandi í kosningabaráttu Framsóknar. 

Samþykkt kosningastefna Pírata skiptist í 24 kafla en meginatriðin voru reifuð á fundinum í dag. 

Nýja stjórnarskráin er á sínum stað sem kosningaáhersla flokksins. Þá vilja Píratar stefna á kolefnishlutleysi fyrir árið 2035 og auka samdrátt í losun hér á landi. Áhersla er lögð á að ábyrgðin verði færð á stjórnvöld og mengandi stórfyrirtæki þegar kemur að losun gróðurhúsalofttegunda. 

Þá sagði Þórhildur Sunna að Píratar ætli að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum og fylgja því eftir með róttækum aðgerðum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert