Framboð Áslaugar kostaði 8,7 milljónir

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra eyddi alls 8,7 milljónum króna í prófkjörsbaráttu sína fyrr á árinu.

Þar atti hún kappi við Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra um oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík en laut í lægra haldi og hafnaði í öðru sæti.

Upplýsingum um framboð Guðlaugs Þórs hefur ekki verið skilað.

Alls nam kostnaður við framboð Áslaugar 8.728.076 krónum, eins og sjá má á uppgjöri félags utan um framboðið, sem nálgast má á vef Ríkisendurskoðunar. Af þeirri fjárhæð var 3.7 milljónum eytt í starfsmannakostnað, 2,6 milljónum í auglýsingar og 1,6 milljónum í rekstur kosningaskrifstofu.

Rekstrartekjur framboðsfélagsins námu alls 8.734.00 krónum og þar af voru framlög einstaklinga um 5,9 milljónir en framlög lögaðila um 2,8 milljónir.

Sjálfstæðismenn stórtækastir

Framboð Hildar Sverrisdóttur í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík kostaði alls 3.418.728 krónur. Þar af var 2,8 milljónum varið í auglýsingar en 582 þúsund krónum í annan kostnað. Framlög einstaklinga til framboðs Hildar námu alls 1.3 milljónum en framlög lögaðila námu rétt rúmum 2 milljónum. Hildur hafnaði í fjórða sæti prófkjörsins.

Á vef Ríkisendurskoðunar má einnig finna uppgjör framboðs Ásmundar Friðrikssonar, sem hafnaði í þriðja sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Alls nam kostnaður við það framboð 3,2 milljónum króna, þar af féllu til 1.4 milljónir vegna kosningaskrifstofu, 537 þúsund vegna auglýsinga, 922 þúsund vegna fundar- og ferðakostnaðar og 313 þúsund vegna annars kostnaðar.

Framlög til framboðs Ásmundar námu 3,2 milljónum króna, þar af 2,1 milljón frá lögaðilum og 1 milljón frá einstaklingum. Eigin framlög Ásmundar sjálfs námu 8.027 krónum.

Þónokkuð margir frambjóðendur úr röðum Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar, Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Pírata hafa skilað til Ríkisendurskoðunar yfirlýsingu þess efnis að framboð þeirra hafi kostað minna en 550 þúsund og því er frekara uppgjörs ekki þörf.

Sem dæmi má nefna hefur framboð Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitastjórnaráherra, ekki kostað meira en 550 þúsund krónur.

mbl.is