Tryggði réttar upplýsingar um dauðsföllin á Landakoti

Heilbrigðisráðherra upplýsti með fullnægjandi hætti um málavexti þegar á annan tug sjúklinga á Landakoti sýktist af völdum kórónuveirunnar og lét lífið í kjölfarið. Þetta segir forsætisráðherra í ítarlegu viðtali í Dagmálum sem birt er í dag. Hafa yfirvöld lýst atvikinu sem hinu „alvarlegasta í sögunni“ á vettvangi íslenskrar heilbrigðisþjónustu.

„Þetta var alvarlegt atvik sem var rannsakað með þeim hætti sem ber að gera,“ sagði Katrín um málið en var þá minnt á að enginn hefði axlað ábyrgð vegna þeirra mistaka sem gerð voru á vettvangi Landspítalans og talin eru, samkvæmt skýrslu landlæknisembættisins, meginorsök þess að svo fór sem fór.

Þar segir m.a.: „Rannsókn embættis landlæknis leiðir í ljós að ekki var um eina orsök að ræða heldur marga samverkandi þætti. Að mati embættis landlæknis má einna helst rekja þessa alvarlegu útbreiddu hópsýkingu til ófullkominnar hólfaskiptingar sem stuðlaði að mikilli og hraðri útbreiðslu smita innan Landakots. Fræðslu og þjálfun starfsmanna ásamt eftirliti með fylgni við sýkingavarnir virðist hafa verið ábótavant. Þá var einnig skortur á sýnatökum á Landakoti, bæði í hópsýkingunni og aðdraganda hennar, sem leiddi til þess að smit uppgötvuðust seinna en ella og dreifðust á aðrar stofnanir.“

Allar upplýsingar liggi fyrir

„Mér fannst ráðherrann gera mjög vel grein fyrir þessu og hún skirrtist ekki við að fara yfir allt þetta mál og að það yrði upplýst með réttum hætti og farið í réttan feril. Það er auðvitað það sem stjórnmálamaður gerir í þessari stöðu. Tryggir það að allar upplýsingar liggi fyrir og það var gert.“

Í samtalinu um viðbrögð stjórnvalda við heimsfaraldrinum minnir Katrín einnig á að heilbrigðisyfirvöld hafi heilt yfir staðið sig vel við að verja líf og heilsu almennings í landinu. Samanburður við aðrar þjóðir staðfesti það.

mbl.is