„Enn eitt skemmdarverkið frá Flokki fólksins“

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, og Guðmundur Franklín, formaður Frjálslynda …
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, og Guðmundur Franklín, formaður Frjálslynda lýðræðisflokksins. Samsett mynd

Eftir að Flokkur fólksins birti framboðslista sinn í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi kosningar varð ljóst að Ágúst Heiðar Ólafsson, kerfóðrari hjá Norðuráli, yrði í framboði fyrir tvo flokka hvorn í sínu kjördæminu.

Þannig er mál með vexti að Ágúst er einnig á lista Frjálslynda lýðræðisflokksins í Norðausturkjördæmi, þar situr hann í 14. sæti.

Frá þessu er greint í Austurfréttum.

Ætlar í framboð með Flokki fólksins

Ágúst segir í samtali við Austurfrétt að hann sé í Flokki fólksins og ætli sér í framboð með þeim flokki en ekki Frjálslynda lýðræðisflokknum.

„Guðmundur Franklín spurði í mig persónu hvort ég hefði áhuga á að taka 14. sæti og ég sagði já. Hann vissi að ég bjó á Akranes þannig ég tel það hafi bara verið mannleg mistök að setja mig á lista fyrir Norðausturkjördæmið,“ segir Ágúst.

Ágúst Heiðar Ólafsson.
Ágúst Heiðar Ólafsson. Ljósmynd/Flokkur fólksins

Þegar rætt var við Guðmund Franklín, formann Frjálslynda lýðræðisflokksins, kom hann af fjöllum og sagðist ætla að kanna málið nánar. Hann segir að vera Ágústs á framboðslista Flokks fólksins sé ólögleg þar sem hann hafi löngu verið búinn að segjast ætla í framboð með Frjálslynda lýðræðisflokknum.

Skilafrestur framboðslista fyrir komandi kosningar rennur út á hádegi á morgun.

Austurfrétt ræddi síðar í dag aftur við Guðmund Franklín og þá sagði hann að Ágúst yrði í framboði fyrir Flokk fólksins. Hann segir að hans eigin sonur muni hlaupa í skarðið fyrir Ágúst, en hann var ekki sáttur með sviptingarnar.

„Þetta er með ólíkindum,“ sagði hann og bætti við: „Þetta er enn eitt skemmdarverkið frá Flokki fólksins.“

mbl.is