Var að vísa til fyrstu skrefa borgaralauna

Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, segir hugmyndir um lántöku ríkissjóðs aðeins …
Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, segir hugmyndir um lántöku ríkissjóðs aðeins vera settar fram í þeim tilgani að fjármagna fyrstu skrefin í átt að borgaralaunum. mbl.is/Unnur Karen

„Ég bara vona að enginn hafi fengið þá upplifun eftir að hafa hlustað á viðtalið að við ætlum að taka einhver gígantísk lán til að keyra borgaralaunum í gegn,“ segir Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, í samtali við mbl.is.

Halldóra var í ítarlegu forystuviðtali í Dagmálum í dag og kom þar fram að Píratar opna á að tekin verða lán af hálfu ríkissjóðs í þeim tilgangi að koma á borgaralaunum. Hún segir það hins vegar ekki nægilega skýrt þar sem útfærslan er nokkuð flóknari en svo.

„Að tryggja þessa skilyrðislausa framfærslu fólks, eða það sem við köllum borgaralaun, það er framtíðarsýn Pírata. Þetta er róttæk kerfisbreyting sem verður ekki komið á á einu kjörtímabili. Það sem ég var að vísa í voru fyrstu skref sem Píratar ætla að taka í átt að þessari framtíðarsýn og er það meðal annars hækkun persónuafsláttar – sem verður greiddur út til þeirra sem ekki nota hann – og draga úr skerðingum í félagskerfinu. Þetta eru fyrstu skref í þessum breytingum sem við getum fjármagnað meðal annars með því að taka lán,“ segir Halldóra.

Telur hún mikilvægt að „vaxa út úr efnahagssamdrættinum“ sem kom til vegna kórónuveirufaraldursins „og við Píratar viljum gera það með að fjárfesta í innviðum og fólki. […] Það er lenska út um allan heim núna að taka lán fyrir fjárfestingum“

Önnur forgangsröðun

Spurð hvort þessi hugmynd að lántöku sé sérstaklega til komin vegna ástandsins sem nú er glímt við segir Halldóra svo vera og segir Pírata hyggjast forgangsraða með öðrum hætti en ríkisstjórnin hefur gert hingað til. „En þetta (lántakan) var bara svona meðal annars. Við töluðum líka um að leggja áherslu á að skattleggja hagnað, há laun, auðlindanýtingu og ofurauð. Við töluðum um að bæta skattaeftirlit, hækka veiðigjöld, þrepaskiptan fjármagnstekjuskatt. Við erum með allskonar pælingar varðandi fjármögnun og lántaka var eitt af mörgu, en ekki fyrir borgaralaunum svo það sé alveg skýrt.“

En samt er þetta lántaka fyrir þessum skrefum í átt að borgaralaunum?

„Bara fyrir þeim breytingum sem við erum að boða strax, sem er að hækka persónuafsláttinn og greiða hann út til þeirra sem eru ekki að nota hann og að draga úr skerðingum. Þetta eru þessi skref sem við gætum meðal annars fjármagnað með að taka lán – til þess að fjárfesta í fólki.“

mbl.is