Skattatillögur áherslumál í ríkisstjórnarsamstarfi

„Þetta myndi verða áherslumál í ríkisstjórnarsamstarfi, við köllum þetta að …
„Þetta myndi verða áherslumál í ríkisstjórnarsamstarfi, við köllum þetta að jafna leikinn á fyrirtækjamarkaði.“ mbl.is/Unnur Karen

Sigurður Ingi Jóhannesson, formaður Framsóknarflokksins, segir að skattatillögur flokksins verði áherslumál ef farið verður í ríkisstjórnarsamstarf.

„Þetta myndi verða áherslumál í ríkisstjórnarsamstarfi, við köllum þetta að jafna leikinn á fyrirtækjamarkaði,“ segir hann í samtali við mbl.is.

„Jafna stöðuna á milli stóru fyrirtækjanna, sem sum hver geta hagnast verulega, og minni og meðalstóru fyrirtækjanna sem eru hryggjarstykki í íslensku atvinnulífi.“

Í kosningaþætti RÚV í gær sagði Sigurður að skatthækkanirnar sem flokkurinn leggur til yrðu ekki stórtækar. 

„Allir vita að Framsóknarflokkurinn stendur fyrir hófsamar lausnir, þannig að við erum ekki að leggja hér til einhverjar ævintýralegar skattahækkanir eða ævintýralegan mismun,“ sagði Sigurður Ingi í þættinum. 

Þar sagði hann einnig að það væri skynsamlegt að láta stórfyrirtæki leggja meira til. 

Málin verða rædd 

Spurður hvort þetta myndi leggja stein í götu fyrir áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf flokksins við Sjálfstæðisflokkinn segir Sigurður að þessi mál verði rædd í þaula.

Skattatillögur flokksins séu tvískiptar: Annars vegar að taka upp þrepaskipt tryggingagjald sem væri ívilnandi fyrir minni og meðalstór fyrirtæki. Hins vegar að taka upp þrepaskiptan tekjuskatt á fyrirtæki sem myndi þá sérstaklega beinast að hreinum hagnaði yfir 200 milljónum.

Alþjóðleg áhersla

„Við ætlum að útfæra þetta, auðvitað í samstarfi við aðra flokka. Við væntum þess ekki að fá hreinan meirihluta.“

Hann bætir við að þetta sé alþjóðleg áhersla og hluti af tillögunum sé að setja skatt á stór alþjóðleg fyrirtæki.

„Ef við ein hefðum lagt fram þessa hugmynd, þá yrði hún vonlaus en þar sem Bandaríkjastjórn gengur nú á undan með slíku fordæmi þá eiga aðrar þjóðir að geta fylgt á eftir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert