Hefði farið aðrar leiðir en Svandís Svavarsdóttir

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins segir að hann eða aðrir ráðherrar Framsóknarflokksins hefðu haldið öðruvísi á málefnum varðandi liðskiptaaðgerðir á yfirstandandi kjörtímabili en Svandís Svavarsdóttir, núverandi heilbrigðisráðherra hefur gert.

Bendir hann á að óheppilegt að fjöldi sjúklinga hafi brugðið á það ráð að leita sér lækninga í Svíþjóð vegna biðlista hér heima, en það hefur kallað yfir ríkissjóð margfaldan kostnað á við það sem það hefði kostað að fela íslenskum einkafyrirtækjum að leysa úr verkefninu.

Ráðherrarnir Sigurður Ingi Jóhannesson, Bjarni Benediktsson og Svandís Svavarsdóttir.
Ráðherrarnir Sigurður Ingi Jóhannesson, Bjarni Benediktsson og Svandís Svavarsdóttir. mbl.is/Jón Helgi

Augljóslega ekki skynsamlegt

„Það hljómar augljóslega ekki skynsamlegt“ segir Sigurður um það hvernig spilast hefur úr þessum málum.

„Ég vil undirstrika að við höfum stutt vel við að bæta heilbrigðiskerfið á þessu kjörtímabili. Við höfum bæði bætt við fjármagni, það hafa verið allskonar breytingar á áherslum. Áskoranirnar er varða geðheilbrigðismál og andlega líðan þjóðar hafa einfaldlega kallað á meiri fókus þar. En það eru ákveðnir hlutir sem ég myndi segja að við hefðum kannski kosið að menn hefðu farið öðruvísi leiðir. Við þekkjum hins vegar ríkisstjórnir á Íslandi og ráðherrar bera ábyrgð á sínum málaflokki svo lengi sem þeir starfa innan stjórnarsáttmálans.“

Segir hann að Framsóknarflokkurinn leggi áherslu á, sem „öfgalaus“ miðjuflokkur að skynsamlegra leiða sé leitað við úrlausn málefna á heilbrigðissviðinu eins og öðrum.

Við erum því ekki föst í því að vilja einkavæða allt heilbrigðiskerfið. Okkur finnst það reyndar röng stefna. Almennt erum við svo líka á móti því að allt eigi að vera unnið af opinberum starfsmönnum enda erum við í grunninn með blandað kerfi. Þar eru hins vegar allskonar hlutir sem hafa komið upp. Við þekkjum hér umræðuna um langa biðlista varðandi einstaka liðskiptaaðgerðir bara sem dæmi.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins situr fyrir svörum í Dagmálum …
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins situr fyrir svörum í Dagmálum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Útboð hefði getað verið hluti lausnarinnar

Segir hann að horfa þurfi til þess verkefnis að stytta biðlista.

„Ef ég eða aðrir framsóknarráðherrar stæði frammi fyrir því í upphafi kjörtímabils, jafnvel þótt við værum að reyna að ná samningum við hóp lækna eða finna einhverjar framtíðarleiðir þá þurfum við að vinna á þessum biðlistum og það er það sem við erum að boða í okkar áherslum núna. Þá væri hægt að gera það með útboði. Og reynist íslenskur aðili reiðubúinn að gera það á hagkvæmastan hátt þá finnst mér einboðið í mínum huga að kaupa 100 eða 150 aðgerðir til eins árs eða tveggja.“

Hann er þá spurður að því hvort ekki sé óþægilegt að líta til þess hvernig haldið hafi verið á þessum málum á kjörtímabilinu þar sem Framsóknarflokkurinn hefur verið í stjórn. Svarar Sigurður Ingi spurningunni ekki beint en segir þó:

„Við myndum alla vega beita okkur öðruvísi við slíkar aðstæður og erum að benda á það í okkar áherslum að ef við myndum t.a.m. leiða það að setja það inn í stjórnarsáttmála, jafnvel vera í því ráðuneyti, þá myndum við nálgast nákvæmlega þetta tiltekna verkefni með því að eyða biðlistum.“

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur setið frá 2017. Nokkur alvarlegustu ágreiningsefnin …
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur setið frá 2017. Nokkur alvarlegustu ágreiningsefnin innan hennar hafa tengst embættisfærslu heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert

Fer ekki í ráðherrakapalinn að sinni

En hann er einnig spurður út í það hvort flokkurinn muni beita sér á nýju kjörtímabili, verði lendingin svo að heilbrigðisráðuneytið verði áfram í höndum VG.

„Eins og ég sagði upphaflega þá held ég að það sé augljóst að við erum búin að afreka mjög mikið á þessum fjórum árum og það kallar á nýjan stjórnarsáttmála þar sem við setjum þá hluti niður. Og þó svo að þið séuð ágætir þá ætla ég ekki að fara að semja hann við ykkur né ráðherrastóla í þeirri ríkisstjórn.“

mbl.is