Allt að áratugur í aðild að ESB

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar er í forystuviðtali Dagmála.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar er í forystuviðtali Dagmála. Ljósmynd/Ásdís Ásgeirsdóttir

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segist þakklát fyrir þann stuðning og meðbyr sem birtist í skoðanakönnunum, en vill ekki fagna of snemma. „Við sem höfum verið í íþróttum vitum að leikurinn er ekki búinn fyrr en hann er flautaður af. Tíu dagar eru langur tími í pólitík og margt sem getur gerst. En við finnum að fólk er móttækilegra fyrir okkar skilaboðum.“ Hún segist heyra kvartanir um óvissu vegna gengismála og vaxtaþróunar, sem eigi bæði við um fyrirtæki og fjölskyldur.

Biðlistavæðing á kjörtímabilinu

„Svo er það heilbrigðiskerfið. Það stendur upp úr öllum um allt land, það er þessi biðlistavæðing sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir vegna kredduhugsunar í heilbrigðismálaráðuneytinu. Það er verið að taka pólitískar ákvarðanir sem þvæla kerfið.

Við erum ekki að kalla eftir einkavæðingu, við erum einfaldlega að segja að við viljum sterkt opinbert kerfi samhliða einkarekstri, blandað kerfi eins og er á Norðurlöndunum. Það þýðir að við notum kraftana sem koma úr einkaframtakinu til þess að ýta undir þjónustu og framleiðni í heilbrigðiskerfinu.“

Nú var Viðreisn stofnuð utan um Evrópumálin á sínum tíma og þið eruð u.þ.b. eini flokkurinn sem er að minnast á þau...

„Þakka þér fyrir að benda á það!“

Þokið þið þeim ein?

„Ef við tölum ekki um það, þá gerir það enginn. Við erum ekki að því bara til þess að fara inn í Evrópusambandið samningsins vegna. Við teljum að lífskjörin muni batna og styrkjast, efnahagslegur stöðugleiki aukast og svo framvegis. En ef og þegar við náum samningum og þeir eru ekki góðir, þá verður Viðreisn fyrsti flokkurinn til þess að leggjast gegn þeim.

Ég fæ þessa spurningu oft, af hverju eruð þið að tala um það sem enginn er að hugsa. Ef við setjum mál aðeins á dagskrá út frá því sem skoðanakannanir segja – það eru ekki þannig stjórnmál sem ég vil vera í. Það eru vindhanastjórnmál.“

Þú varst á þingi 2009 þegar aðildarumsóknin var samþykkt, sast raunar hjá, en þú spurðir þá hvort þingið ætti bara að vera upp á punt. Hvað nú?

Þörf á meiri upplýsingu

„Ég geri mér grein fyrir að við þurfum meiri umræðu, meiri upplýsingu. Við erum að heyra alls konar rangfærslur um að útlendingar fái fiskimiðin okkar og orkan verði tekin – tómt píp, auðvitað – en við þurfum meiri upplýsingu. Þess vegna höfum við lagt til að þverpólitísk nefnd taki við málinu og undirbúi þá atkvæðagreiðslu, þar sem við spyrjum fólkið hvað eigi að gera.“

Er það ekki uppgjöf?

„Nei, við erum að halda málinu gangandi. En við þurfum þá að hlusta á fólkið og gerum ekkert nema þjóðin sé búin að tala.

Þetta er risamál og þó að við séum eindreginn Evrópuflokkur, þá þýðir ekkert að vaða áfram eins og gert var 2009.“

Ykkur verður tíðrætt um upptöku evrunnar. Hver má fórnarkostnaðurinn vera milli efnahagslegs stöðugleika og hagvaxtar?

Sex til tíu ára ferli

„Það er stefna okkar að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Það tekur einfaldlega langan tíma, 6 til 10 ár. Það þarf þjóðaratkvæðagreiðslu, samningaviðræður og stjórnarskrárbreytingu til.“

En þið bíðið ekki eftir evrunni?

„Nei, við erum að leita lausna. Það er fullt af fólki sem er að spyrja um þessi mál, vill ekki þessar gengissveiflur, vill að verðbólgan sé lág eins og annars staðar, að lágir vextir séu ekki tímabundið ástand.“

Má fórna hagvextinum fyrir stöðugleika með nýjum gjaldmiðli?

„Eftir hrunið 2009 var réttilega talað um að efla nýsköpun, en þegar betur áraði vildi fólk ekki rugga bátnum, en nú þegar aftur gefur á bátinn, m.a. vegna heimsfaraldursins, þá förum við aftur að huga að því hvernig við getum styrkt fjórðu stoðina. Styrkt þennan hagvöxt, styrkt alþjóðasamstarfið og útflutningsgreinarnar sem byggjast á hugviti, sem byggjast á nýsköpun, á þjónustu við útlönd. Það er sama við hvern ég tala í þeim hópi, þar kalla allir eftir stöðugum gjaldmiðli.“

Hefði það verið ákjósanlegt í kórónukreppunni undanfarna 18 mánuði, þar sem ferðaþjónustan þurrkaðist út, að gjaldmiðillinn hefði ekki haggast?

„Það er oft sagt um krónuna að það megi láta hana falla til þess koma í veg fyrir atvinnuleysi. Samt jókst atvinnuleysi meira hér en víða í sambærilegum löndum. Ég hefði viljað gjaldmiðil sem hefði veitt okkur meiri fyrirsjáanleika.“

Í dag eru 29 ár síðan George Soros gerði atlögu að Englandsbanka og Bretar hrökkluðust úr evrópska myntsamstarfinu. Þegar sú stóra þjóð átti ekki séns, eigum við meiri séns?

„Það hafa menn á undan mér í pólitík bent á að fara ætti einhverja svipaða leið. Á þeim tíma hefði það ekki endilega verið skynsamlegt, en þar sem staða gjaldeyrisvaraforðans er jafnsterk og raun ber vitni, þá er það raunhæft.“

En þið talið um gagnkvæmar gengisvarnir, hvernig á Seðlabanki Íslands að bjarga gervöllu evrusvæðinu? Er það ekki brandari?

„Nei nei. Ég er búin að lesa Morgunblaðið mjög lengi og það hefur spáð falli evrunnar í 20 ár.“

Andrés Magnússon og Stefán Einar Stefánsson fara yfir stöðuna.
Andrés Magnússon og Stefán Einar Stefánsson fara yfir stöðuna. Ásdís Ásgeirsdóttir

Gagnkvæmar gengisvarnir

Þið talið um „gagnkvæmar gengisvarnir“ það hlýtur að hafa einhverja merkingu hjá ykkur?

„Já já, þess vegna er samningsstaða okkar með þennan gjaldeyrisvaraforða alveg ágæt til þess að fara í þetta. Evrópusambandið vill sýna að það sé ekki þetta bákn og það sé sveigjanlegt...“

En Evrópusambandið hlær væntanlega að 800 milljarða króna gjaldeyrisforða í heildarsamhenginu?

„Eigum við þá ekki bara að fá hláturinn? Af hverju ekki að láta á það reyna? Við erum alltaf búin að semja við sjálf okkur áður en við förum út. Hvers konar sjálfstraust er það?

Ríkisstjórnin samþykkti mjög víðtækar heimildir um gjaldeyrishöft til Seðlabankans. Mér finnast það ekki góð skilaboð, en ríkisstjórnin er að segja að þau treysta sér ekki til þess að vera með krónu, nema með gjaldeyrishöft í bakhöndinni. Fyrir nýsköpunarfyrirtæki og fyrir fyrirtæki almennt, þá eru þetta ekki bestu skilaboðin til alþjóðlegra fjárfesta.“

Á hvaða gengi verður krónan fest við evruna?

„Á markaðsgengi.“

Á markaðsgengi dagsins þegar bindingin á sér stað? Þá verðum við nú fljótt vogunarsjóðunum að bráð. Dauð á fyrsta degi.

„Ef þú getur sagt mér það hvað gengið er eftir ár, þá skal ég svara þér.“

Það eruð þið, sem eruð að leggja til gengisbindingu.

„Ég er að segja þér þetta. Ef þú getur svarað mér því.“

Er það þá stefna ykkar að taka gengisbindingu upp á genginu sem verður þegar skrifað verður undir?

„Við skulum bara sjá til með það.“

Það skiptir öllu. Sigmar Guðmundsson, frambjóðandi Viðreisnar, lofaði okkur því hér í þættinum að þetta yrði gert heyrinkunnugt fyrir kosningar, af því að það skipti fólk máli. Þið hljótið að hafa einhverja hugmynd um á hvaða gengi það skuli gert?

„Það er ekkert ólíklegt að það verði einhvers staðar nálægt markaðsgenginu. En það fer auðvitað allt eftir samningunum.“

Þorgerður Katrín er þaulreyndur stjórnmálamaður. Hún tók fyrst sæti á …
Þorgerður Katrín er þaulreyndur stjórnmálamaður. Hún tók fyrst sæti á Alþingi árið 1999. mbl.is/Ásdís

Hagkvæmni og sanngirni

Þorgerður segir ákall um aukið gagnsæi þegar kemur að sjávarútveginum. Það skýrist ekki síst af því að auðlindagjald sé reiknað út frá opinberu fiskverði sem sé 30 til 40 prósentum lægra en markaðsverðið.

En er þá ekki einfaldasta lausnin að rétta af fiskverðið í stað þess að innkalla veiðiheimildirnar?

„Nei. Að fenginni reynslu, með fullri virðingu fyrir m.a. eigendum Morgunblaðsins og öðrum, þá segi ég, það er betra að markaðurinn ráði þessu heldur en að það séu stjórnmálaflokkar sem eru að víla og díla með þetta. Ég treysti einfaldlega markaðnum til að gera þetta.“

Bendir hún á að hagnaður útgerðarinnar hafi numið um 40 milljörðum á ári hin síðustu ár sem séu gríðarlegar fjárhæðir. Það sé jákvætt en að ákallið sé einnig um „réttlæti og hagkvæmni“ í senn.

Bendir hún á að flokkur hennar vilji að 3-5% aflaheimilda fyrnist á ári hverju og verði í kjölfarið boðnar upp á markaði. Er hún sannfærð um að það muni skila betri afkomu í ríkissjóð en nú er raunin.

Úr fimm milljörðum í níu

„[...] Ef við erum að fá um 4,8 til 5 milljarða í dag þá verði u.þ.b. 9 milljarðar króna sem verði hægt að fá með uppboði. Það er mjög líklegt miðað við hvernig fiskverð er metið og hvert gengið er á markaði.“

Ef við værum með kerfið sem þið boðið nú í ár, þá myndi það skila níu milljörðum?

„Já, mér finnst það mjög líklegt. Við erum ekki að koma hérna eins og aðrir flokkar sem eru að segja að við ætlum að taka 20 til 30 milljarða og sjá ekki hagsmunina í því að hafa hér öflugan sjávarútveg. Sjávarútvegurinn er grundvallaratvinnuvegur í íslensku samfélagi. við viljum ekki kippa stoðunum undan honum. Við viljum að það sé hagkvæmni og skilvirkni, að það sé áfram þróun og rannsóknir sem við höfum séð núna. En við viljum líka réttlæti.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert