Fer ekki leynt með hvað hann kýs

„Miðflokkurinn var búinn að eyða svo miklu í auglýsingar,“ segir …
„Miðflokkurinn var búinn að eyða svo miklu í auglýsingar,“ segir Jón. Hann hafi því fundið sig knúinn til að stíga inn. Ljósmynd/Facebook

Jón Elvar Hjörleifsson, bóndi á Hrafnagili í Eyjafirði, fer ekki leynt með hvaða flokk hann kemur til með að kjósa í alþingiskosningunum en hann tók af skarið og tætti listabókstaf Miðflokksins í kornekrur sínar þrjár.

„Miðflokkurinn var búinn að eyða svo miklu í auglýsingar,“ segir Jón í samtali við mbl.is. Hann hafi því fundið sig knúinn til að stíga inn.

„Við gerðum þetta fyrir síðustu kosningar. Þá gerði ég þetta á öðrum stað, á túni. Maður verður að sýna lit.“

Nágranninn ekki sáttur

„Simmi kemur oft í kaffi til mín,“ segir hann um Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann flokksins, og bætir við að hann hafi sjálfur verið flokksmaður Miðflokksins frá degi eitt, stofnfélagi í rauninni. „Svo gerði ég svona ör á nágrannann. Hann er alls ekki miðflokksmaður. Honum fannst þetta ekki fyndið,“ segir Jón og hlær.

Spurður hvort hann hafi verið lengi að þessu segir Jón að svo hafi ekki verið. „Þetta var bara hálftími eða klukkutími og er gert bara með GPS og tætara. Grettir bróðir er verktaki og á þessa græju.“

Af ökrunum náðist loftmynd sem Sigmundur sjálfur hefur síðan deilt á facebooksíðu sinni. „Þórir Gunnarsson sendi mér þessa mynd, hann er úr sveitinni. Einkaflugmaður líka.“

mbl.is