Árverkniátak í aðdraganda kosninga

Fólk er hvatt til að staldra við og velta upplýsingunum …
Fólk er hvatt til að staldra við og velta upplýsingunum fyrir sér. AFP

Fjölmiðlanefnd stendur nú fyrir árvekniátakinu „Stoppa, hugsa, athuga“ með stuðningi frá Facebook.

Á síðasta ári var sjónum beint að Covid-19 falsfréttum í sambærilegu árvekniátaki sem fram fór í samstarfi við embætti landlæknis og Vísindavefinn.

„Nú er athyglinni beint að því hvernig við greinum og metum upplýsingar á netinu og hvernig við bregðumst við ummælum og staðhæfingum á samfélagsmiðlum og í athugasemdakerfum. Mikið magn frétta og upplýsinga er nú að finna á netinu í aðdraganda kosninga til Alþingis þann 25. september nk. Markmið átaksins er að fá fólk til að staldra við og velta fyrir sér upplýsingum áður en það myndar sér skoðun eða skrifar athugasemdir og deilir upplýsingunum áfram á netinu,“ segir í tilkynningu frá nefndinni.

Þriðjungur myndaði sér ranga skoðun

Niðurstöður könnunar, sem var framkvæmd af Maskínu fyrr á þessu ári fyrir Fjölmiðlanefnd, sýna að elsti og yngsti aldurshópurinn á erfiðara með að koma auga á falsfréttir en þátttakendur í öðrum aldurshópum. Þá efast 80% þátttakenda um sannleiksgildi upplýsinga á netinu og þriðjungur segist hafa myndað sér ranga skoðun á opinberri persónu vegna villandi upplýsinga.

Fimmtungur hætti jafnframt að taka þátt í umræðum vegna ögrunar í athugasemdakerfum.

Um fjórðungur þátttakenda í könnun nefndarinnar segist hafa upplifað af eigin raun hatursfull ummæli á netinu á síðustu 12 mánuðum og 20% þeirra segjast hafa hætt að taka þátt í umræðum á netinu í kjölfar háðs og ögrunar.

„Boðskapur átaksins er einfaldur: Stoppaðu, hugsaðu þig um og athugaðu sannleiksgildi upplýsinga sem þú sérð á netinu. Staldraðu við áður en þú skrifar athugasemd við fréttir eða færslur eða deilir upplýsingum áfram. Almenningur getur skoðað stutt myndband og tekið þátt í léttum spurningaleik til að kanna færni sína á netinu, auk þess sem hægt er að leita frekari upplýsinga um viðfangsefnið á vef Fjölmiðlanefndar,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert