Er einhver þörf á listabókstöfum?

Listabókstafir eru áberandi í kosningabaráttum á Íslandi. Hins vegar er …
Listabókstafir eru áberandi í kosningabaráttum á Íslandi. Hins vegar er engin knýjandi þörf fyrir þeim að sögn prófessors í stjórnmálafræði. Ljósmynd/Samsett

Því er tekið sem sjálfgefnu hér á landi að framboð til Alþingis eða sveitarstjórna þurfi að fá úthlutaðan listabókstaf og framboðslistar séu rækilega merktir umræddum bókstaf. Fyrirkomulagið er þó ekki með þessum hætti alls staðar þar sem listakosning fer fram. Það vekur spurninguna hvers vegna þessi tilhögun viðgengst hér á landi, ekki síst hvort hægt sé að haga þessu með öðrum hætti.

Í Svíþjóð eru kjörseðlar merktir með merkjum framboðanna til þess að tryggja að kjósendur séu vel meðvitaðir um lista hvers flokks sem þeir eru að veita atkvæði. Framkvæmd kosninganna er frábrugðin íslenskum aðstæðum að því leyti að kjörseðlar liggja frammi fyrir allra augum og þarf kjósandi að velja seðil svo aðrir sjái og fara með hann í kjörklefann.

Norðmenn hafa sambærilega framkvæmd atkvæðagreiðslu og hér á landi en framboðum er ekki úthlutað listabókstaf. Kjörseðlar eru eingöngu merktir framboðum með því að nafn framboðs stendur skýru letri efst á kjörseðli.

Líklega frá Dönum

Í Danmörku hins vegar fá öll framboð úthlutaðan listabókstaf og eru á kjörseðlum bókstafur og svo nafn framboðs. Þar var bókstafskerfinu fyrst komið á í tengslum við kosningar til Landsþings árið 1901 og svo nýtt aftur í sveitarstjórnarkosningum 1908. Í fyrsta sinn var stuðst við samræmdan listabókstaf framboða í dönskum kosningum er kosið var til sveitarstjórna 1936.

Það er spurning hvort hefð Íslendinga fyrir því að hafa listabókstaf komi frá Danmörku. „Líklega er það þaðan,“ svarar Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, er blaðamaður ber undir hann þá kenningu.

„Listabókstafirnir eru bara til einföldunar og þeir hafa sérstaklega skipt máli þegar menn voru að kjósa utan kjörfundar. Þá skrifuðu menn bara listabókstafinn. Á fyrrihluta 20. aldar var svolítið á reiki hvaða bókstafir voru notaðir. Meðal annars var Sjálfstæðisflokkurinn stundum með C og svo var Sósíalistaflokkurinn með C, en núna er það Viðreisn sem er með C. Þetta var ekki endilega samræmt milli sveitarfélaga þó svo það kunni að hafa verið í þingkosningum,“ útskýrir Ólafur.

Atkvæðaseðlar á kjörstað í Svíþjóð
Atkvæðaseðlar á kjörstað í Svíþjóð

Rifjar hann upp sögu af því að upp hafi komið sú staða í kosningum í Hafnarfirði í kringum 1930 að úrskurða þurfti um seðil þar sem kjósandi virtist hafa ritað C, en ekkert framboð var með listabókstafinn C í Hafnarfirði á þessum tíma. Þá hafi fulltrúi Alþýðuflokksins byrjað að færa rök fyrir því að þarna hafi kjósandinn í raun verið að skrifa lítið a. Hins vegar auglýsti sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík framboð sitt með listabókstafnum C.

„Þetta sýnir mikilvægi þess að vera með samræmda listabókstafi og helst sömu bókstafi kosningar eftir kosningar – eins og nú er. Það er gert til að einfalda þetta fyrir kjósendur,“ segir Ólafur. Framboð hafa þó skipt um listabókstaf og bendir hann á að Vinstri-grænir voru fyrst með listabókstafinn U og tóku síðar upp V. „Kvennalistinn var áður með V og bauð síðast fram 1995. Þá er skiljanlegt að VG vildi ekki vera með V strax 1999, en færðu sig yfir í V sem hentar líklega betur þar sem það er fyrsti stafurinn í nafninu á flokknum.

En svo er Samfylkingin með S, sem rímar við heitið, en það rímar líka við Sjálfstæðisflokkinn. En það er orðin svo mikil hefð á því að D sé fyrir Sjálfstæðisflokkinn.“

Ekki knýjandi þörf

En þurfum við listabókstafi? „Það væri í sjálfu sér nóg að vera bara með nafn á framboði og líka í utankjörfundaratkvæðagreiðslunni ef öll framboðin eru komin fram þegar hún hefst. Núna er þetta þannig að hægt er að kjósa utan kjörfundar áður en öll framboð eru komin fram,“ svarar Ólafur og bætir við að við þessar aðstæður sé „augljóst hagræði“ í því að styðjast við bókstafi. Hann bendir þó á að stefnt sé að því að breyta fyrirkomulagi utankjörfundaratkvæðagreiðslna.

„Það er líka kannski hagræði [fyrir flokkana] í áróðri að geta sagt XA, XB eða XC. En í rauninni er engin knýjandi nauðsyn [að hafa listabókstafi]. Hins vegar er þetta orðin svo mikil hefð hjá okkur að við munum aldrei breyta því,“ segir Ólafur og skellir upp úr.

Fjölbreytt úrval listamerkja

Indland er fjölmennasta lýðræðisríki í heimi með um 1,4 milljarða íbúa. En læsi mældist í fyrra um 78% auk þess sem á þriðja tug tungumála eru viðurkennd sem opinber tungumál í landinu.

Flokkar nýta því merki til að aðgreina sig frá öðrum framboðum. Til að koma í veg fyrir ágreining og aðstoða kjósendur hefur yfirkjörstjórn á Indlandi gefið út lista með yfir 200 samþykktum merkjum.

Indversk listamerki eru fjölbreytt, en ofangreind merki eru dæmi um …
Indversk listamerki eru fjölbreytt, en ofangreind merki eru dæmi um þau merki sem eru í notkun.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert