Stúdentar gera ákall um markvissar aðgerðir til lengri tíma

Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur staðið fyrir herferðinni „Stúdentar eiga betra …
Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur staðið fyrir herferðinni „Stúdentar eiga betra skilið“. Sigurður Bogi Sævarsson

Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur staðið fyrir herferðinni „Stúdentar eiga betra skilið“ í tilefni alþingiskosninga. Herferðin einblínir á erfiða fjárhagslega stöðu stúdenta og er ákall um markvissar aðgerðir stjórnvalda til lengri tíma.

Stúdentaráð var nú í morgun að gefa frá sér myndband þar sem ráðið áréttar kröfur sínar en fyrir helgi gaf Stúdentaráð jafnframt út yfirlit yfir þau atriði í stefnum stjórnmálaflokkanna sem varða málefni stúdenta.

Samantektin tekur mið af kosningaáherslum og kosningastefnum flokkanna fyrir komandi kosningar.

Lykilatriði að auknar fjárveitingar séu ekki einungis vegna fjölgunar nemenda

Í fréttatilkynningu frá Stúdentaráði segir að fjárlög fyrir árið 2021 hafi gert ráð fyrir auknu fjármagni til háskólastigsins til að tryggja getu háskólanna til að sinna fjölgun nemenda með fullnægjandi móti, fjölgun sem mátti rekja til faraldursins. Aftur á móti sé lykilatriði að auknar fjárveitingar séu ekki einungis vegna tímabundinnar fjölgunar nemenda, heldur líka til þess að styrkja menntakerfið okkar til framtíðar.

„Stúdentaráð krefst þess að fjárframlög til Háskóla Íslands, sem og háskólastigsins í heild sinni, séu endurskoðuð af miklum þunga enda á núverandi fyrirkomulag ekki að vera forsenda uppbyggingar og styrkingu innviða æðstu menntastofnunar landsins,“ segir í tilkynningu.

„Bætt fjármögnun háskólastigsins er lykilatriði fyrir uppbyggingu á innviðum háskólanna, rannsóknarstarfsemi og gæði kennslu og náms. Íslenskir háskólar standa norrænum samanburðarskólum enn langt að baki þegar kemur að fjármögnum eins og fram kemur á meðfylgjandi mynd. Heildartekjur háskóla á ársnema á Norðurlöndunum eru að meðaltali 4,6 milljónir króna árlega, en á Íslandi aðeins 2,9 milljónir. Nemendur á Íslandi fá því um 1,7 milljónum króna minna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert