Kappræðuþáttur 2: Þurfa allir að gera málamiðlun

Leiðtogakappræður í Morgunblaðshúsinu í Hádegismóum.
Leiðtogakappræður í Morgunblaðshúsinu í Hádegismóum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna, sagði í kappræðum Dagmála ekkert gefið að hún kæmi að myndun ríkisstjórnar eftir kosningar þótt hún væri algerlega tilbúin til þess. Hún hamraði hins vegar á því að þegar þar að kæmi væri ljóst að allir flokkar, sem að ríkisstjórnarmyndun kæmu, þyrftu að að brjóta odd af oflæti sínu og fallast á málamiðlanir.

Katrín Jakobsdóttir, Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir frá Pírötum og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, tóku þátt í kappræðum síðari hóps stjórnmálaleiðtoga í Hádegismóum í gær. 

Kappræðurnar:

Ærið verkefni

„Það verður ærið verkefni að mynda ríkisstjórn, hún getur orðið fjögurra, fimm eða jafnvel sex flokka. Þá skiptir máli að allir stjórnmálaflokkarnir verði lausnamiðaðir og það þýðir að allir munu þurfa að gefa eitthvað eftir af sínum málum. Það er held ég mikilvægasta umræðan, sem við þurfum að eiga, hvernig fólk ætli að nálgast það að mynda öfluga og starfhæfa ríkisstjórn. Af því að það mun kalla á málamiðlanir,“ sagði Katrín. 

„Málamiðlanir eru oft ekki vinsælar, það þekki ég vel, en þær eru hluti af hinu pólitíska litrófi. Þessi mynd gefur okkur ýmsa möguleika á stjórnarmyndun. Að sjálfsögðu nálgast ég það út frá okkar málum og það munu vinir mínir hér líka gera út frá sínum málum. Við þurfum að gefa kjósendum raunhæfar væntingar. Þarna munu allir þurfa að gefa eitthvað eftir til þess að ná farsælli lendingu fyrir samfélagið,“ sagði hún. 

Katrín Jakobsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vonast eftir betri uppskeru á kjördag

Katrín var sérstaklega innt eftir því hvort ekki yrði erfitt að vera forsætisráðherra með ekki meiri þingstyrk á bak við sig en lesa má úr skoðanakönnunum þessa dagana, mun minni en nokkur annar forsætisráðherra lýðveldissögunnar.

„Auðvitað vonast ég til þess að mín stjórnmálahreyfing uppskeri meira á kjördag, við þurfum að sjá hverju þessi vika skilar og mörg enn þá óákveðin.

Ég vonast til þess að fólk taki afstöðu til þess sem við höfum verið að gera, af því við teljum að við höfum náð góðum málefnalegum árangri á kjörtímabnilinu, en ekki síður þess sem við erum að leggja fram fyrir þessar kosningar, að það skipti mjög miklu máli hvaða ákvarðanir verða teknar þegar við förum út úr heimsfaraldri. Það skiptir máli að hafa félagslega sýn að leiðarljósi, tryggja jöfnuð og afkomu fólks.“

Útreikningar Pírata

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var spurð út í reikningskunnáttu Pírata í ljósi áhuga hennar á fjármálaráðuneytinu, en þar var vísað til mistaka við útreikning á boðuðum breytingum á tekjuskatti og orða þingkonunnar Halldóru Mogensen um að taka mætti risavaxin lán fyrir borgaralaunum.

„Það var vissulega mjög vandræðaleg reikningsskekkja í [útreikningunum], sem við leiðréttum um leið og við fengum ábendingu og þökkuðum fyrir hana,“ svaraði hún og benti á að stjórnarandstöðuflokkar hefðu ekki sama aðgang að gögnum og sérfræðiaðstoð og stjórnarflokkar. Um borgaralaunin sagði hún ljóst að svör Halldóru hefðu ekki verið „upp á tíu“, enda hefði hún leiðrétt þau skömmu síðar.

Þórhildur Sunna og Sigmundur Davíð.
Þórhildur Sunna og Sigmundur Davíð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fallandi persónuafsláttur

Inga Sæland varð spurð út í hugmyndir Flokks fólksins um fallandi persónuafslátt, en nokkuð hefur verið á reiki við hvaða mörk hann skuli falla. „Þetta er í raun algert stillingaratriði hvernig og hvenær persónuafslátturinn byrjar að falla.“ Það gæti gerst einhvers staðar á milli 650 og 800 þúsund krónur. „Við ætlum að færa til í skattkerfinu milli 50 og 60 milljarða króna til þess að geta komið lágmarksframfærslu í 350 þúsund krónur, skatta- og skerðingarlaust. Meginmarkmiðið er fæði, klæði og húsnæði fyrir alla.“ Spurð hvort persónuafsláttarmörkin yrðu ekki gefin upp fyrir kosningar svaraði hún: „Aldrei gefið neinn nákvæman skurðpunkt. Það er ekki tískan fyrir kosningar. Það vita allir,“ sagði Inga og uppskar hlátur.

Lýðræðið tekið úr sambandi

Í þættinum var m.a. rætt hvort stjórnmálin væru að breytast. „Það er áhyggjuefni hvernig stjórnmálin eru að þróast,“ svaraði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. „Stjórnmálamenn eru farnir að líkjast leikurum æ meir, meðan ákvarðanirnar eru teknar annars staðar. En þeir geta sjálfum sér um kennt því þeir hafa árum saman verið að gefa frá sér völd til stjórnkerfisins, stofnana, nefnda, ráðuneytanna o.s.frv. Þetta er oft gert með vísan til þess að þeir séu svo faglegir. Ef einhver ókosinn tekur ákvörðunina, þá sé það faglegt, en pólitísk ákvörðun sé slæm. Þetta er ekki góð nálgun á stjórnmálin, því með því er lýðræðið tekið úr sambandi og það skiptir minna og minna máli hvað fólk kýs, því það fær alltaf sömu stjórnina.“

mbl.is