Ríkisstjórnin gæti haldið

Samkvæmt nýrri fylgiskönnun stjórnmálaflokka, sem MMR gerði í samstarfi við Morgunblaðið, eru Framsókn og Sjálfstæðisflokkur enn í sókn líkt og í fyrri könnun MMR í vikunni. Aftur á móti hafa Vinstri græn dalað frekar og miðað við það og þingsætaútreikninga kann ríkisstjórnin að vera naumlega fallin með 31 þingmann samtals. Afar litlar fylgisbreytingar þarf þó til að ríkisstjórnin haldi með 32 eða 33 mönnum og fyrirsjáanlegt að kosninganóttin verður ákaflega spennandi.

Miðjuhægriflokkar sækja á, en vinstrið dalar

Ef litið er á fylgishreyfingar í þessari viku er greinilegt að Framsókn, Viðreisn og Sjálfstæðisflokkur eru að sækja í sig veðrið á lokasprettinum með frekar afgerandi hætti, en herslumuninn vantar til þess að stjórnarflokkarnir haldi velli. Þar munar mest um að vinstriflokkarnir hafa tekið að dala á ný og er fylgi þeirra frekar að fletjast út. Samfylkingin hefur þannig tapað mestallri fylgisaukningu liðinna vikna. Hlutfallslega hefur Sósíalistaflokkurinn þó tapað mestu fylgi frá því í liðinni viku, þegar hann var með hátt í 9% en er nú við 5% fylgi.

Fylgi Flokks fólksins hefur hins vegar styrkst talsvert og sömuleiðis virðist Miðflokkurinn vera að treysta sig, þó hann sé enginn hástökkvari.

Ríkisstjórnarmyndun örðug

Miðað við þingsætaspá, sem byggð er á niðurstöðum þriggja síðustu kannana, getur reynst snúið að mynda ríkisstjórn að kosningum loknum. 14 kostir eru í boði. Þar kemur Framsókn að borðinu í öllum tilvikum nema einu og Viðreisn og/eða Sjálfstæðisflokkurinn í öllum fjögurra flokka stjórnum. Hins vegar mætti mynda eina þriggja flokka stjórn með naumasta meirihluta, stjórn Framsóknar, Viðreisnar og Sjálfstæðisflokks. Ósennilegt verður þó að telja að flokkarnir hætti á svo tæpan meirihluta.

Margbrotið fylgi flokka

Þegar rýnt er í niðurstöður skoðanakannana MMR og niðurbrot þeirra eftir kyni, aldri, kjördæmum, menntun, tekjum og afstöðu til ríkisstjórnarinnar, má glöggt greina hvernig hin ýmsu framboð höfða mjög misjafnlega til einstakra hópa kjósenda.

Efst á síðunni má þannig sjá hversu misvel flokkarnir standa í einstökum kjördæmum landsins og einnig breiðari skírskotun, þar sem sumir eiga greinilega mestan stuðning á höfuðborgarsvæðinu en aðrir fremur á landsbyggðinni.

Ekki kemur á óvart að Framsóknarflokkurinn á meira fylgi að fagna á landsbyggðinni, það er gömul saga, en hins vegar telst til tíðinda hversu mikið forskot hann hefur í Norðausturkjördæmi og kannski enn frekar í Suðurkjördæmi þar sem hann hefur tekið fram úr Sjálfstæðisflokknum.

Það er líka áberandi hvað flokkar sækja mismikið í aldurshópa. Sumir flokkar eiga þannig talsvert meira fylgi hjá ungum kjósendum, sem erfa eiga landið, en á hinn bóginn er reynslan sú að þeir noti kosningaréttinn síður en þeir sem eldri eru.

Oft er talað um að elsta kynslóðin sé einnig tryggustu kjósendurnir, hún fari og kjósi hvað sem tauti og rauli. Hjá fólki 68 ára og eldra er fjórflokkurinn gamli í góðu gildi, en nýrri framboð eiga ekki upp á pallborðið. Í þann hóp sækir Samfylkingin mun meira fylgi en hjá hinum og það kann að skipta miklu þegar talið er upp úr kössunum.

Augljóst er að Flokkur fólksins sækir miklu frekar fylgi í elsta hópinn en hina, en hið sama á við þegar litið er til tekjuminnsta hópsins og þess sem er með minnsta menntun. Það á ekki að koma á óvart þegar horft er til kosningaáherslna flokksins.

Sennilega er það þó hversu mismikið flokkarnir sækja fylgi eftir kynjum, sem mesta athygli ætti að vekja. Og umhugsun einstakra flokka, bæði þeirra sem einkum virðast höfða til kvenna eða mun frekar til karla.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »