Stjórnarflokkarnir fengju 35 þingmenn

Stjórnarflokkarnir þrír, Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Vinstrihreyfingin - grænt framboð, mælast nú samanlagt með 50% fylgi og fengju 35 þingmenn samkvæmt nýrri könnun Gallup. 

Níu flokkar næðu inn á þing ef marka má könnunina, sem RÚV greinir frá.  

Ríkisstjórnin hefur sótt nokkuð í sig veðrið í síðustu könnunum. Uppfærð könnun Maskínu fyrr í dag sýndi að ríkisstjórnin héldi velli og samkvæmt könnun MMR fyrir mbl.is í dag var ríkisstjórnin afar nærri því að halda velli. 

Í könnun Gallup mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 23,4% fylgi, Framsóknarflokkurinn mælist með 14,9% fylgi og VG er með 12,6% fylgi.

Af stjórnarandstöðuflokkunum mælist Samfylkingin með 12,6% fylgi, Viðreisn með 9,2% og Píratar með 8,8%. Miðflokkurinn mælist með 6,8% fylgi og Flokkur fólksins með 6,4% fylgi. Þá mælist Sósíalistaflokkurinn með 5,3% fylgi. 

mbl.is