Bjóða frítt far á kjörstað

Eyþór Máni Steinarsson átti ennþá eftir að kjósa sjálfur þegar …
Eyþór Máni Steinarsson átti ennþá eftir að kjósa sjálfur þegar mbl.is náði tali af honum rétt fyrir kvöldmat. Samsett mynd

Rafskútuleigan Hopp hefur boðið kjósendum upp á fríar hlaupahjólaferðir á kjörstað í allan dag. Eyþór Máni Steinarsson framkvæmdastjóri Hopp segir ætlunina með átakinu að hvetja almenning til þess að kjósa. Hopp er sjálft með nokkurs konar kosningaloforð fyrir komandi kjörtímabil.

„Við viljum bara gera það sem við getum til þess að auka kosningaþátttöku og ef fólki vantar faraskjóta til að komast á kjörstað þá hefur fólk að minnsta kosti ekki afsökun núna,“ segir Eyþór sem viðurkennir þó að hann eigi sjálfur eftir að kjósa.

Kjósendur tekið boðinu vel

Hann segir almenning hafa tekið vel í tilboðið en hann hefur ekki tekið saman tölfræðina enn sem komið er:  „Fólk segir mér að þau hafi notað þetta og ég sé mörg hjól fyrir utan kjörstaðina. Sjálfur á ég eftir að kjósa en ég mun að minnsta kosti nota þetta persónulega.”

Notendur Hopp sjá þá græn svæði á korti Hopp-forritsins nálægt kjörstöðunum. Ef skútunum er skilað þar eru notendurnir ekki rukkaðir um fargjald fyrir leiguna. 

Vilja afnema virðisaukaskattinn á rafskútuleigu

Aðspurður hvers lags áherslubreytingar Hopp vilji sjá á komandi kjörtímabili er ýmislegt sem Eyþóri dettur í hug:

„Við höfum verið að þrýsta á löggjafann hvað varðar rafskútur sérstaklega og það er svona okkar helsta mál að gera fólki kleift að vera á rafskútum á 30-götum. Síðan höfum við líka rætt við efnahags- og viðskiptanefnd um að afnema virðisaukaskatt af rafskútum eins og öðrum almenningssamgöngum.

Þú borgar ekki virðisaukaskatt í leigubíl eða strætó svo við sjáum ekki hvers vegna aðrar reglur ættu að gilda um rafskútur. Við höfum meira að segja heitið því að lækka verðið því sem nemur virði virðisaukaskattsins ef til þess kæmi að hann yrði afnuminn. Það tilboð stendur ennþá ef þingið vill taka okkur upp á því.“

Rafskútur frá Hopp.
Rafskútur frá Hopp. Ljósmynd/Hopp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert