Byrja að telja klukkan tíu í Laugardalshöll

Erla S. Árnadóttir, formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavíkurkjördæmi norður, fer yfir …
Erla S. Árnadóttir, formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavíkurkjördæmi norður, fer yfir undirbúning og talningu atkvæða í samtali við mbl.is. Eggert Jóhannesson

Klukkan tíu í kvöld munu yfirkjörstjórnir Reykjavíkurkjördæmanna hefja talningu atkvæða í alþingiskosningunum sem nú standa yfir en talsverður undirbúningur þarf að ganga yfir áður en heimilt er að hefja talningu.

Ekki er allskostar ljóst hvað kemur upp úr kjörkössunum en ríkisstjórnin hefur fallið og haldið velli á víxl í skoðanakönnunum.

Atkvæðin flokkuð en ekki talin fyrr en kjörstaðir loka

Erla S. Árnadóttir, formaður yfirkjörsóknar í Reykjavíkurkjördæmi norður, lýsir því í samtali við mbl.is að atkvæðin séu flokkuð áður en innsigli eru rofin í Laugardalshöll og talning hefst.

Kjörstöðum lokar klukkan fimm og sameinast þá kjörstjórnir Reykjavíkur norður og Reykjavíkur suður en hin fyrri er með aðsetur í Ráðhúsinu og hin seinni í Hagaskóla.

Þegar svo er komið hefst flokkun atkvæða: „Þá koma kjörkassarnir niður í Laugardalshöll og eru læstir þar inni ásamt fólkinu sem er að vinna úr fyrri kjörkössunum og síðan er byrjað að flokka atkvæðin, og stemma að við fjöldann á kjörseðlum sem eru í kössunum við það sem er í kjörskránni,“ segir hún.

Reynslubúnt úr prentsmiðjum fengin í verkið

Þá fara atkvæðin í einn bunka fyrir hvern lista en þau ekki talin, þar sem slíkt verður ekki heimilt fyrr en klukkan tíu þegar kjörstöðum er lokað. Segir Erla að vant fólk, sem hefur starfsreynslu úr prentsmiðjum, sé fengið í verkið enda snýst það að stóru leyti um meðhöndlun skriflegra gagna.

Að því búnu verður innsiglið að talningarsalnum rofið og almenningi heimilt að fylgjast með talningunni á ákveðnum svæðum. 

„Þá rjúfum við innsiglið á talningasalnum og eftir það er almenningi heimill aðgangur að því að fylgjast með talningunni á ákveðnum svæðum. þá er byrjað að telja og þannig gengur það fyrir sig þar til allt hefur verið talið og tölur liggja fyrir,“ segir Erla að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert