„Ég verð við sjónvarpið fram eftir morgni“

„Við erum vonast til þess að bæta við okkur þingmönnum …
„Við erum vonast til þess að bæta við okkur þingmönnum og það er engin ástæða til að ætla annað.“ mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir fyrstu tölur úr Suður- og Norðvesturkjördæmi endurspegla ágætlega það sem hann bjóst við þrátt fyrir slaka mælingu í skoðanakönnunum síðustu daga kosningabaráttunnar.

„Ég kom bara bjartsýnn inn í þetta kvöld eftir mjög skemmtilega baráttu. Þetta hefur verið spennandi, tölur úr könnunum hafa verið aðeins misvísandi en þær hafa þó bent til þess að við værum að sækja í okkur veðrið á lokametrunum. Það er gleðilegt að sjá.“

Sjá hvort stjórnin haldi velli

Eftir talningu fyrstu atkvæða mælist flokkurinn með 26,3 prósent í Suðurkjördæmi og 24,1 prósent í Norðvesturkjördæmi og ljóst að þingsæti flokksins í þeim kjördæmum haldist óbreytt verði það lokaniðurstaðan. Flokkur forsætisráðherra, Vinstrihreyfingin grænt framboð, hefur samkvæmt fyrstu tölum aftur á móti tapað töluverðu fylgi.

Spurður hvort það kalli á það að Sjálfstæðisflokkurinn leiti á önnur mið í stjórnarmyndun segir Bjarni svo ekki vera. „Nei það er bara ekki tímabært að tala um það. Við ætlum að sjá hvort stjórnin haldi velli og svona staða einstakra flokka er svona að mestu leyti í samræmi við það sem kannanir voru að gefa vísbendingar um. Við skulum sjá hver heildarniðurstaðan verður.

Geti ráðist á örfáum atkvæðum

Við erum að vonast til þess að bæta við okkur þingmönnum og það er engin ástæða til að ætla annað en að það geti gerst en jafnvel þó að við höldum þingmannafjölda okkar þá getur það talist fínn árangur. Það er fram úr mörgum könnunum og við vitum sem er að nákvæm úthlutun þingsæta geti ráðist á örfáum atkvæðum. Núna verður þetta gríðarlega spennandi alveg þangað til í fyrramálið.“

Þannig það gæti verið að þú verðir hér í alla nótt?

„Nei við getum ekki verið hér nema þangað til til miðnættis en ég verð við sjónvarpið fram eftir morgni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert