Fyrstu tölur í Reykjavík klukkan 23

Kosið verður m.a. í Verkmenntaskólanum á Akureyri og krakkar úr …
Kosið verður m.a. í Verkmenntaskólanum á Akureyri og krakkar úr íþróttafélaginu Þór unnu við það í gær að bera inn kjörkassa. mbl.is/Margrét Þóra Þórsdóttir

„Þetta eru stórir kjörseðlar vegna fjölda framboða. Það seinkar vinnunni enda er mikið sem þarf að skoða á hverjum seðli. Það þarf að gaumgæfa allan seðilinn og kanna hvort það sé einhver útstrikun eða annað sem ógildir seðilinn,“ segir Gestur Jónsson, formaður yfirkjörstjórnar í Norðausturkjördæmi.

Þingkosningarnar í dag eru þær 24. frá stofnun lýðveldisins 1944. Á kjörskrá eru tæplega 255 þúsund manns. Þar af eru tæplega 127 þúsund karlar, tæplega 128 þúsund konur og 40 kynsegin. Tíu flokkar bjóða fram á landsvísu. Kjörstaðir verða opnaðir klukkan níu og eru víðast hvar opnir til klukkan 22.

Fæstir kjósendur eru í Árneshreppi að þessu sinni, 40 talsins. Flestir eru þeir hins vegar í Reykjavík eða 91.093. Fjölmennasta kjördæmið er Reykjavík suður með 45.725 á kjörskrá en Norðvesturkjördæmi er það fámennasta með 21.548 á kjörskrá.

Gestur segir að mikil spenna sé í loftinu hjá talningarfólki á kjördag. Byrjað verði að flokka kjörseðla um klukkan 19. „Við stefnum að því að reyna að birta fyrstu tölur um klukkan hálfellefu,“ segir Gestur. Hann treystir sér ekki til að spá um hvenær talningu ljúki en segir ljóst að talningin verði óvenjuafturþung í þetta skipti vegna fjölda utankjörfundaratkvæða. Ekki er hægt að telja þau fyrr en talningu atkvæða af kjörstöðum er lokið.

Talning atkvæða í Reykjavík fer fram í Laugardalshöll. Hægt verður að fylgjast með streymi frá talningunni á vef Reykjavíkurborgar. Erla S. Árnadóttir, formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavíkurkjördæmi norður, segir í samtali við Morgunblaðið að hún vonist eftir að fyrstu tölur verði kynntar upp úr klukkan 23.

Ýmsar upplýsingar um kosningarnar er að finna á vefsíðu dómsmálaráðuneytisins. Þar kemur til dæmis fram að símavakt verður bæði í ráðuneytinu og hjá Þjóðskrá Íslands á kjördag. Kjósendum sem eru í sóttkví eða einangrun vegna kórónuveirunnar er sérstaklega bent á vefsíðuna island.is/covidkosning2021 en þar er að finna ítarlegar leiðbeiningar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert