Gleðin allsráðandi hjá Flokki fólksins

Guðmundur Ingi Kristinsson.
Guðmundur Ingi Kristinsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ég var nú að gera grín að því að ég þyrfti að taka með mér sólgleraugu, væri orðinn of bjartsýnn. Ég hefði sennilega átt að gera það,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, þegar blaðamaður mbl.is náði af honum tali skömmu eftir að fyrstu tölur í Norðvestur- og Suðurkjördæmi voru birtar. 

Flokkur fólksins bætir við sig 5,4% atkvæða í kjördæmunum tveimur eftir fyrstu tölur og er nú með 14,2% af greiddum atkvæðum á Suðurlandi og 10% í Norðvesturkjördæmi.

Nóttin enn meira spennandi

„Þetta er alveg ótrúlegt og fer fram úr allra björtustu vonum. Ég er ótrúlega þakklátur. Maður var að gæla við það að við hefðum svona 2% upp á að hlaupa en við virðumst vera að fá meira um það. Mér hefði aldrei geta dreymt um það að fá tvo menn næstum á Suðurlandi,“ segir Guðmundur, sem setur þó fyrirvara við það að um fyrstu tölur sé að ræða. 

Hann segir gleðina vera alsráðandi á kosningavöku flokksins; „Þetta gerir nóttina enn þá meira spennandi.“

Guðmundur segist vonast til þess að meðbyrinn eigi eftir að skila sér í hin kjördæmin;

„Ég varð var við það síðasta hálfa mánuðinn hvað fólk var jákvætt og var tilbúið að kjósa okkur. Maður vissi ekki hvort það myndi skila sér en það er greinilega að gera það.“

mbl.is