Hvernig verður kosningaveðrið?

Það eru kosningar í dag.
Það eru kosningar í dag. mbl.is/Hari

Í dag spáir allhvassri eða hvassri norðaustanátt á norðvestanverðu landinu og með suðausturströndinni, en annars hægari vindur. Það er ekki mikla úrkomu að sjá í kortunum, rigning með köflum um landið sunnanvert og stöku skúrir eða slydduél með norðurströndinni, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Frostmarkslínan liggur ekki hátt svo hætta er á slyddu eða snjókomu á fjallvegum með versnandi færð, einkum um norðanvert landið. Undir kvöld byrjar síðan að rigna um landið A-vert, en stefnir jafnvel í þurran dag á Faxaflóasvæðinu, segir jafnframt. 

Á morgun stefnir í áberandi verra veður á Vestfjörðum en annars staðar á landinu. Það gengur í norðaustanstorm þar, en dregur úr vindi annars staðar þegar líður á daginn. Einnig bætir í úrkomu um allt land þar sem úrkoman verður á formi slyddu og snjókomu á fjallvegum. Einna mest verður úrkoman á norðanverðu landinu, þar á meðal á Vestfjörðum. Fólk er beðið um að fylgjast vel með veðurspám þar sem beytingar gætu orðið þegar nær dregur að sögn Veðurstofu Íslands. 

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert