Hylja frambjóðendur Framsóknar með rúlluplasti

Rúlluplasti var skellt yfir merkingar Framsóknar á kosningaskrifstofunni.
Rúlluplasti var skellt yfir merkingar Framsóknar á kosningaskrifstofunni. Ljósmynd/Aðsend

Kjörstjórn Borgarfjarðar bað kosningaskrifstofu Framsóknar í Borgarnesi að hylja yfir skilti sín, þar sem að skrifstofan er beint á móti kjörstað.

„Afþví að við erum á móti kjörstað að þá sáust merkingarnar af kjörstað, þegar kjörstaðir opnuðu í morgun þá fengum við símhringingu og hentum upp rúlluplastinu yfir allt saman.“ segir Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, sem skipar annað sæti lista Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

„Þetta í rauninni vakti mun meiri athygli eftir að við gerðum þetta, þannig að þetta er búið að skapa mjög líflegar umræður í dag og margir héldu að þetta væri skemmdarverk,“ bætir hún við.

Lilja segir að fólk hafi rölt inn á skrifstofu í dag og spurt hvað væri í gangi. „Það er búið að vera mjög fyndið að hafa þetta svona í dag en þetta eru náttúrulega bara kosningalög.“

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is