Margar áætlanir um flutning atkvæða

Gestur Jónsson.
Gestur Jónsson. mbl.is/Margrét Þóra

Margvíslegar áætlanir hafa verið gerðar svo takast megi að ná atkvæðum frá kjörstöðunum 44 í Norðausturkjördæmi á skikkanlegum tíma á talningarstað á Akureyri. Veðurspá fyrir kjördag er allt annað en spennandi sem gæti sett strik í reikninginn. Á Norður- og Austurlandi er spáð roki og rigningu í byggð, með slyddu eða snjókoma til fjalla.

„Allra veðra er von nú þegar langt er liðið á september. Við höfum sett okkur í samband við ýmsa sem eru í startholunum þannig að flutningur á atkvæðum til talningar gangi upp. Þetta á ekki að verða neitt mál,“ segir Gestur Jónsson formaður yfirkjörstjórnar.

Aðstæðna vegna hefur sérstaklega þurft að hugsa fyrir flutningi á kjörkössum úr Grímsey. Miðað er við að sigla með atkvæðin í land þegar kjörfundi lýkur, sem gjarnan er um hádegi eða þegar allir sem staddir eru í eynni hafa kosið. Ef sjóleiðin er ekki fær verður flogið og þriðja planið er þyrla frá Landhelgisgæslunni.

„Flutningur á atkvæðum á talningarstað er annars með ýmsu móti,“ segir Gestur. „Á stundum er þetta eftir atvikum í höndum kjörstjórnanna sjálfra eða einhverra á þeirra vegum, í einhverjum tilvikum kemur lögreglan að málum og stundum björgunarsveitir. Núna höfum við til dæmis sett okkur í samband við liðsmenn þeirra um flutning af Langanessvæðinu og eins ef ekki er flugfært frá Egilsstöðum til Akureyrar vegna flutnings kjörgagna þaðan. Björgunarsveitabílarnir eru öflugir og komast þetta.“

Yfirleitt hafa öll atkvæði úr Norðausturkjördæmi verið komin í hús á Akureyri á þriðja tímanum á kosninganótt – og talningu þeirra gæti lokið milli milli klukkan 6 og 7 á morgni. Um 50 manns eru í talningarsveit og í öðrum verkefnum sem sinnt er hjá yfirkjörstjórn sem hefur aðsetur í Brekkuskóla á Akureyri. „Kosningar eru alltaf skemmtilegar,“ segir Gestur Jónsson sem hefur verið í kjörstjórnum og ýmsum hlutverkum þar frá 1974. Þetta eru því 14. alþingiskosningarnar sem hann kemur að – og þar við bætast kosningar til bæjarstjórnar, forseta og fleira.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »