Auglýsingar Miðflokksins hittu ekki í mark

Grétar Þór Eyþórsson prófessor segir ljóst að þó Miðflokkurinn hafi …
Grétar Þór Eyþórsson prófessor segir ljóst að þó Miðflokkurinn hafi eytt duglega í markaðsefni í aðdraganda kosninga hafi það ekki skilað sér á sama hátt og það gerði hjá Flokki fólksins. Samsett mynd

Grétar Þór Eyþórsson prófessor í stjórnmálafræði segir ljóst að ríkisstjórnarflokkarnir hafi náð vopnum sínum aftur á lokasprettinum en það sé þó ekki áfellisdómur yfir könnunum sem slíkum. Markaðsherferðir flokkanna hafi greinilega fallið misvel í kramið hjá kjósendum.

„Það getur ýmislegt gerst síðustu daga fyrir kosningar og núna voru margir óákveðnir. Kannanir geta ekki mælt þær sveiflur sem eiga sér stað síðustu einn tvo sólarhringanna, það er mjög erfitt. Það stendur eftir að fólk er bara að gefa þeim áframhaldandi umboð sýnist mér,“ segir Grétar.

Kjósendur Sósíalista hörfa í VG og Samfylkingu 

Hann segir Flokk fólksins á margan hátt sigurvegara kosninganna á sama tíma og Miðflokkurinn sé hruninn á meðan Framsókn blómstrar. „En það er alveg ljóst að þau sem höfðu gefið sig upp á Sósíalistaflokkinn bökkuðu aftur til Vinstri grænna eða Samfylkingarinnar.“

Aðspurður hvert fylgi Miðflokksins hafi hörfað segir Grétar líklegt að þeir hafi leitað í Flokk fólksins, aftur í Sjálfstæðisflokkinn eða í Framsókn: „Hrun Miðflokksins var alveg fyrirséð, við vorum byrjuð að sjá það í könnunum á sama hátt og við sáum Sósíalistaflokkinn dala síðustu vikurnar. Þó það hafi ekki virst jafn afdrifaríkt þá og raun ber vitni.“

Megi ekki vanmeta kosningavél Sjálfstæðisflokksins

Sjálfstæðisflokkurinn virðist einnig hafa verið nokkuð vanmetinn en það er gömul saga og ný: „Við megum ekki gleyma því að Þetta er flokkur sem á rosalega sterka maskínu sem vinnur á kjördag.“

Grétar segir sjónvarpsauglýsingar flokkanna greinilega hafa hitt misvel í mark hjá kjósendum: „Auglysingar Flokks fólksins skiluðu sér greinilega, en á sama tíma var Miðflokkurinn með mikla herferð sem skilaði töluvert lakari kosningu. Það er greinilegt að það skiptir máli hvernig þessar herferðir eru útfærðar.“

Hann segir fjárhagslegt bolmagn þingflokkanna greinilega hafa hjálpað þeim mikið: „Flokkarnir inni á þingi áttu greinilega peninga í auglýsingar. Þar áttu sósíalistar ekkert svar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert