„Framsóknarflokkurinn er sigurvegari kosninganna“

mbl.is/Hólmfríður

„Framsóknarflokkurinn er sigurvegari kosninganna. Við erum að bæta mjög miklu fylgi við okkur og við erum ótrúlega þakklát fyrir það,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins.

Spurð hvort hún telji líklegt að flokkurinn fari í samstarf með Sjálfstæðisflokknum, í ljósi þess að flokkarnir eru nú leiðandi samkvæmt þeim atkvæðum sem þegar hafa verið talin, segir Lilja flokkinn munu sækjast eftir því að vera leiðandi. 

Mun Framsóknarflokkurinn sækjast eftir forsætisráðuneytinu?

„Við munum sækjast eftir því að vera leiðandi,“ endurtekur hún.

Ágúst Bjarni Garðarsson.
Ágúst Bjarni Garðarsson. mbl.is/Hófí

Of snemmt að segja til um tveggja flokka stjórn

Ágúst Bjarni Garðarsson, sem skipar annað sæti á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi, telur aukið fylgi flokksins meðal annars mega rekja til starfa flokksins í barna- og samgöngumálum.

„Flokkurinn hefur verið að fjárfesta í innviðum og fólki, en um leið sýna aðhald í rekstri og ég held að fólk almennt sé að kalla eftir stöðugleika í þjóðfélaginu okkar.“

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn leiða nú kosningarnar og eru nú með 29 þingmenn inni, samkvæmt spálíkani mbl.is sem miðar við talin atkvæði og fyrirliggjandi skoðanakannanir MMR.

Spurður hvort flokkurinn sé mögulega að íhuga tveggja flokka stjórn með Sjálfstæðisflokknum segir hann enn of snemmt að segja til um mögulega stjórnarmyndun.

„Ég hef sagt það áður, mér finnst rétt að klára að telja, sjá hvað kemur upp úr kjörkössunum, svo verða formenn okkar að taka samtalið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert