Geymir allar yfirlýsingar í bili

Sigurður Ingi á kosningavöku Framsóknarflokksins í kvöld.
Sigurður Ingi á kosningavöku Framsóknarflokksins í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það var gott hljóðið í Sigurði Inga Jóhannssyni, formanni Framsóknarflokksins, þegar blaðamaður mbl.is náði tali af honum skömmu fyrir klukkan tvö. 

Miðað við þau atkvæði sem talin hafa verið hingað til hefur Framsóknarflokkurinn bætt við sig alls fimm þingmönnum og töluverðum atkvæðafjölda. 

Spurður hvort að hann líti á tölurnar hingað til sem sigur fyrir Framsókn segir Sigurður;

„Ég held að það sé svo sem engin spurning, það sem hefur meðal annars komið fram í þessum tölum sem komnar eru fram að Framsóknarflokkurinn er sterkur í öllum kjördæmum landsins og það er eitthvað sem ég hef viljað ná fram sem formaður flokksins. Þetta er auðvitað stórsigur í öllum kjördæmum, en ég set þann fyrirvara að það er ekki mikið af tölum komnar og það má ekki gleyma því að tæplega 50 þúsund atkvæði voru greidd utan kjörfundar.“

Spurður hvort að hann muni fara fram á stjórnarmyndunarumboð og þá hvort hann myndi leita til hægri eða vinstri segir Sigurður;

„Ég ætla að geyma allar yfirlýsingar þangað til öll atkvæði hafa verið talin. En ég er gríðarlega stoltur af öllu mínu fólki og þakka kjósendum fyrir að taka eftir því hvaða árangur við höfum náð í ríkisstjórn. Ríkisstjórnin í heild sinni hefur auðvitað unnið stórsigur... Við vorum með frábæra kosningabaráttu og langbesta slagorðið; er ekki bara langbest að kjósa framsókn. Er það ekki staðan eftir nóttina?“

Þá segir Sigurður að þegar niðurstaðan liggi fyrir sé fyrst hægt að vega og meta hver staðan verði. Hann er þó tilbúinn að segja til um þau mál sem munu skipta Framsókn máli í mögulegum stjórnarmyndunarumræðum;

„Það eru þau mál sem við höfum verið að leggja áherslu á, að fjárfesta í fólki... Við höfum lagt áherslu á að viðhalda jafnvægi, og ég held að það sé það sem kjósendur eru að velja og þess vegna hafi ríkisstjórnarflokkarnir komið vel út úr þessum kosningum.“

Spurður hvort að muni áfram fylgjast með gangi máli inn í nóttina segir Sigurður;

„Maður getur sofið seinna.“ 

mbl.is