Guðmundur Franklín dregur sig í hlé

Guðmundur Franklín Jónsson, formaður Frjálslynda lýðræðisflokksins.
Guðmundur Franklín Jónsson, formaður Frjálslynda lýðræðisflokksins. Ljósmynd/Aðsend

Guðmundur Franklín Jónsson, formaður Frjálslynda lýðræðisflokksins, ætlar að draga sig í hlé frá stjórnmálum.

Flokkurinn hlaut aðeins 844 atkvæði í þingkosningunum í gær, eða 0,44%.

Á facebooksíðu sinni segist hann líklega ætla að vinna áfram við ferðaþjónustu og kveðst einnig vel geta hugsað sér að vinna áfram með fólkinu sem tók þátt í kosningabaráttunni með honum.

Hann segir Frjálslynda lýðræðisflokkinn eflaust ætla að vera í framboði í næstu sveitarstjórnarkosningum en býst sjálfur ekki við því að taka þátt.

„Ég er búinn að fá nóg,” segir hann og bætir við að lítil eftirspurn virðist vera eftir sér.

„Kannski eru þessar hugmyndir mínar crazy,” heldur hann áfram en tekur fram að hann líti ekki á sig sem neinn öfgamann heldur réttsýnan einstakling.

Einnig segir hann sýndarlýðræði vera við lýði hérlendis og að lítið muni breytast í framtíðinni í íslenskum stjórnmálum. Núverandi ríkisstjórn gæti auðveldlega haldið áfram í tvö til þrjú kjörtímabil í viðbót, enda sé hún „með svipuna á þessu liði“.

mbl.is