Kjörgögnin hafi ekki verið innsigluð en salurinn læstur

Talning í Norðvesturkjördæmi fór fram í Borgarnesi.
Talning í Norðvesturkjördæmi fór fram í Borgarnesi.

Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi viðurkennir að kjörgögn hafi ekki verið innsigluð þegar fólk fór heim eftir talningu í morgun. Þetta kemur fram á vef Vísis

Fyrr í kvöld gagnrýndi Magnús Davíð Norðdahl, oddviti Pírata í kjördæminu, talningu atkvæðanna harðlega.

Ingi sagði í samtali við Vísi að atkvæðin hafi verið skilin eftir í læstum sal á hótelinu. Magnús segir salinn aftur á móti hafa verið opinn og gesti á hótelinu. Skipulagið sé hið sama ár eftir ár.

„Þau eru bara skilin eftir og læst inn í salinn. Svo förum við heim og hvílum okkur í smá tíma og förum aftur á staðinn. Þetta er bara vinnulag sem er búið að vera eins lengi og ég veit. Það er ekkert innsiglað, það er engin aðstaða til að innsigla þetta,“ sagði Ingi.

Í samtali við mbl.is segist Kristín Edwald, formaður Landskjörstjórnar ekki geta tjáð sig um málið annað en að það heyri undir viðeigandi yfirkjörstjórn. Þá vísaði hún einnig í 104. grein kosningalaga þar sem segir að kjörgögn skuli innsigluð.

Ekki náðist í Inga Tryggvason við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is