Lokatölur á landsvísu: Ríkisstjórnin heldur velli

Fólkið sem leitt hefur ríkisstjórnina síðastliðin fjögur ár gæti samið …
Fólkið sem leitt hefur ríkisstjórnina síðastliðin fjögur ár gæti samið um áframhaldandi samstarf miðað við niðurstöður kosninganna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nú þegar lokatölur hafa verið birtar í öllum kjördæmum er ljóst að ríkisstjórnin heldur velli með 37 þingmenn af 63 og getur hún þakkað góðu gengi Framsóknarflokksins fyrir það. Allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar náðu aftur inn á þing.

Framsóknarflokkurinn er án efa sigurvegari kosninga til Alþingis þetta árið en flokkurinn bætti við sig fimm þingmönnum. Miðflokkurinn, sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson stofnaði eftir að hann yfirgaf Framsóknarflokkinn árið 2017, tapaði flestum þingmönnum í kosningunum og standa nú einungis þrír þingmenn flokksins eftir.

Flokkur fólksins bætti við sig næst flestum þingmönnum eða tveimur. Þá bætti Viðreins einnig við sig einum þingmanni. Vinstri græn fóru illa út úr þessum kosningum og töpuðu þremur þingmönnum. Samfylkingin tapaði einum þingmanni.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, getur aldeilis prísað sig sæla …
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, getur aldeilis prísað sig sæla með niðurstöðu kosninganna en Gunnar Smári hjá Sósíalistaflokknum situr eftir með sárt ennið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sósíalistar komust nálægt þingsæti en ekki nógu nálægt

Þó skoðanakannanir hafi bent til þess að Sósíalistar myndu ná inn manni þá varð það ekki raunin en flokkurinn fékk um 4% atkvæða.

Sjálfstæðisflokkurinn og Píratar standa í stað á milli kosninga þegar horft er til þingmanna alls á landsvísu. Báðir flokkar töpuðu eilitlu fylgi en það hefur ekki áhrif á þingmannafjölda þeirra.

Hverjir taka sæti á Alþingi okkar Íslendinga?

Hér að neðan má finna upplýsingar um fylgi hvers flokks fyrir sig og þingmenn flokkanna:

Kjördæmakjörnir þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru 16 talsins en flokkurinn fékk alls 24,4% fylgi og tapaði 0,8% fylgi á landsvísu frá síðustu kosningum. Flokkurinn fékk engin jöfnunarsæti. Þingmenn flokksins eru eftirfarandi, eftir kjördæmum:

 • Norðvestur: Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Haraldur Benediktsson
 • Norðaustur: Njáll Trausti Friðbertsson, Berglind Ósk Guðmundsdóttir
 • Suður: Guðrún Hafsteinsdóttir, Vilhjálmur Árnason, Ásmundur Friðriksson
 • Suðvestur: Bjarni Benediktsson, Jón Gunnarsson, Bryndís Haraldsdóttir, Óli Björn Kárason
 • Reykjavík suður: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Hildur Sverrisdóttir, Birgir Ármannsson
 • Reykjavík norður: Guðlaugur Þór Þórðarson, Diljá Mist Einarsdóttir
Ásmundur Einar Daðason var í baráttusæti í Reykjavík norður. Hann …
Ásmundur Einar Daðason var í baráttusæti í Reykjavík norður. Hann vann þann slag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kjördæmakjörnir þingmenn Framsóknarflokksins eru 13 talsins en flokkurinn fékk alls 17,3% fylgi og bætti við sig 6,6% fylgi á landsvísu frá síðustu kosningum. Flokkurinn fékk engin jöfnunarsæti. Þingmenn flokksins eru eftirfarandi, eftir kjördæmum:

 • Norðvestur: Stefán Vagn Stefánsson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir,
 • Norðaustur: Ingibjörg Ólöf Isaksen, Líneik Anna Sævarsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson.
 • Suður: Sigurður Ingi Jóhannsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir
 • Suðvestur: Willum Þór Þórsson, Ágúst Bjarni Garðarsson
 • Reykjavík suður: Lilja Dögg Alfreðsdóttir
 • Reykjavík norður: Ásmundur Einar Daðason

Kjördæmakjörnir þingmenn Vinstri grænna eru sex talsins. Þá fær flokkurinn tvö jöfnunarsæti. Vinstri græn fengu alls 12,6% atkvæða og töpuðu 4,3% fylgi á landsvísu frá síðustu kosningum, eða þremur þingmönnum. Þingmenn flokksins eru eftirfarandi, eftir kjördæmum:

 • Norðvestur: Bjarni Jónsson
 • Norðaustur: Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Jódís Skúladóttir (jöfnunarsæti)
 • Suðvestur: Guðmundur Ingi Guðbrandsson
 • Reykjavík suður: Svandís Svavarsdóttir
 • Reykjavík norður: Katrín Jakobsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir
 • Suður: Hólmfríður Árnadóttir (jöfnunarsæti)

Kjördæmakjörnir þingmenn Samfylkingarinnar  eru fimm talsins. Þá fær flokkurinn eitt jöfnunarsæti. Samfylkingin fékk alls 9,9% atkvæða og tapaði 2,2% fylgi á landsvísu frá síðustu kosningum og því einum þingmanni. Þingmenn flokksins eru eftirfarandi, eftir kjördæmum:

 • Norðaustur: Logi Már Einarsson
 • Suður: Oddný G. Harðardóttir
 • Suðvestur: Þórunn Sveinbjarnardóttir
 • Reykjavík suður: Kristrún Mjöll Frostadóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir (jöfnunarsæti)
 • Reykjavík norður: Helga Vala Helgadóttir

Kjördæmakjörnir þingmenn Flokks fólksins eru sex talsins en flokkurinn fær ekkert jöfnunarsæti. Flokkur fólksins fékk alls 9% atkvæða og bætti við sig 2,1% fylgi á landsvísu frá síðustu kosningum og bætir því við sig tveimur þingmönnum.  Þingmenn flokksins eru eftirfarandi, eftir kjördæmum:

 • Norðvestur: Eyjólfur Ármannsson
 • Norðaustur: Jakob Frímann Magnússon
 • Suður: Ásthildur Lóa Þórsdóttir
 • Suðvestur: Guðmundur Ingi Kristinsson
 • Suður: Inga Sæland
 • Reykjavík norður: Tómas A. Tómasson

Kjördæmakjörnir þingmenn Pírata eru þrír talsins en flokkurinn fær einnig þrjú jöfnunarsæti. Píratar fengu alls 8,6% atkvæða og töpuðu 0,6% fylgi á landsvísu frá síðustu kosningum en engum þingmanni. Þingmenn flokksins eru eftirfarandi, eftir kjördæmum:

 • Suðvestur: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir
 • Reykjavík suður: Björn Leví Gunnarsson, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir
 • Reykjavík norður: Halldóra Mogensen, Andrés Ingi Jónsson (jöfnunarsæti), Lenya Rún Taha Karim (jöfnunarsæti)

Kjördæmakjörnir þingmenn Viðreisnar eru þrír talsins en flokkurinn fær einnig tvö jöfnunarsæti. Viðreisn fékk alls 8,3% atkvæða og bætti við sig 1,6% fylgi á landsvísu frá síðustu kosningum og því einum þingmanni. Þingmenn flokksins eru eftirfarandi, eftir kjördæmum:

 • Suðvestur: Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Sigmar Guðmundsson (jöfnunarsæti)
 • Reykjavík suður: Hanna Katrín Friðriksson
 • Reykjavík norður: Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir
 • Norðvestur: Guðmundur Gunnarsson (jöfnunarsæti)

Kjördæmakjörnir þingmenn Miðflokksins eru tveir talsins en flokkurinn fær einnig eitt jöfnunarsæti. Miðflokkurinn fékk alls 5,4% atkvæða og tapaði 5,5% fylgi á landsvísu frá síðustu kosningum og fjórum þingmönnum. Þingmenn flokksins eru eftirfarandi, eftir kjördæmum:

 • Norðaustur: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
 • Suður: Birgir Þórarinsson
 • Suðvestur: Karl Gauti Hjaltason

Eins og áður segir nær Sósíalistaflokkurinn ekki inn manni þrátt fyrir að hafa fengið 4,1% atkvæða. Þá ná hvorki Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn né Ábyrg framtíð inn manni en báðir flokkarnir fengu fylgi sem nam innan við einu prósenti.

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is