„Óendanlega sárt“ að missa Jón Steindór

„Það er gott að heyra að það er hljómgrunnur fyrir …
„Það er gott að heyra að það er hljómgrunnur fyrir frjálslyndi en skilaboðin voru þau að það eigi ekki endilega að breyta neitt miklu,“ segir Þorgerður Katrín. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

Stjórnarandstöðuflokkarnir virðast flestir hafa sig nokkuð hæga þennan fyrsta dag eftir Alþingiskosningar og telja almennt að stjórnarmyndunarboltinn sé hjá ríkisstjórnarflokkunum þremur. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar segir engar þreifingar í gangi. 

„Við erum bara róleg,“ segir Þorgerður í samtali við mbl.is. Viðreisn bætti við sig einum þingmanni á milli kosninga og segist Þorgerður ánægð með það þó hún hefði vitanlega viljað sjá betri niðurstöðu fyrir Viðreisn.

„Ég er þakklát fyrir það að við bættum við okkur. Það ánægjulega er að við erum að styrkja okkur verulega á landsbyggðunum. Við fundum fyrir miklum meðbyr. Við fundum það að fólk var forvitið og langaði að tala við okkur um okkar stefnu og sjá aðeins inn í framtíðina. Hvort sem var rætt um loftslagsmál, sjávarútveg eða gjaldmiðilsmál.“

Fagnar Sigmari og Guðmundi

Einn af þingmönnum Viðreisnar, Jón Steindór Valdimarsson, féll út af þingi í kosningunum en hann var í öðru sæti á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.

„Það er óendanlega sárt að missa Jón Steindór af þingi. Hann hefur verið einn ötulasti maðurinn inni á þingi og komið í gegn mikilvægum málum eins og samþykkismálinu og fleiri prinsippmálum. Um leið fagna ég öflugum liðsauka í Sigmari [Guðmundssyni] og Guðmundi [Gunnarssyni],“ segir Þorgerður sem hefði viljað sjá hærra fylgi hjá Viðreisn.  

„Það er alla vega ljóst að Viðreisn stendur eftir sem hin frjálslynda miðja. Frjálslynda miðjan bætti við sig. Mér sýnist að vinstri blokkin sé öll að lækka, það kemur á óvart miðað við þær kannanir sem voru settar fram. Þegar upp er staðið þá heldur ríkisstjórnin þó að Vinstri græn hafi fallið mjög í fylgi. Ég vil bara óska Framsóknarflokknum til hamingju með góðan sigur,“ segir Þorgerður og vísar til þess að Framsóknarflokkurinn hafi bætt við sig sex þingmönnum á milli kosninga.

Skilaboðin sú að ekki eigi að breyta miklu

Gerirðu ráð fyrir því að ríkisstjórnarflokkarnir muni tala sig saman án þess að þreifa fyrir sér annars staðar?

„Við sem höfum verið á þinginu vitum að það eru mörg mál mjög erfið á milli stjórnarflokkana. Þegar þau koma inn í þingið er eiginlega búið að meitla allt í stein vegna þess að það þarf að semja um allt. Svo er sumt sem fer ekki í gegn, allt frá „minni frelsismálum“ og svo grundvallarmálum fyrir tiltekna flokka eins og Vinstri græn sem fá ekki í gegn sum mál þrátt fyrir að það hafi staðið í stjórnarsáttmálanum, til dæmis hvað varðar Miðhálendisþjóðgarð eða skarpari stefnu í loftslagsmálum. Á móti fá Vinstri græn að ráða ríkjum í heilbrigðismálum og vinna eftir þeirra hugsjónum í heilbrigðismálum sem markast af sósíalisma,“ segir Þorgerður og bætir við:

„Það er gott að heyra að það er hljómgrunnur fyrir frjálslyndi en skilaboðin voru þau að það eigi ekki endilega að breyta neitt miklu.“  

Þingflokkur Viðreisnar mun að öllum líkindum funda um stöðuna á morgun.

mbl.is