„Ótrúleg rússíbanareið“

Jóhann Páll Jóhannsson ásamt kærustu sinni Önnu Bergljótu Gunnarsdóttur á …
Jóhann Páll Jóhannsson ásamt kærustu sinni Önnu Bergljótu Gunnarsdóttur á kosningavöku Samfylkingarinnar í gærkvöldi. Ljósmynd/Karítas

Eftir endurtalningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi er ljóst að Jóhann Páll Jóhannsson verður þingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður í stað Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur sem skipar 2. sæti á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður og mældist inn á þingi þar til fyrir skömmu. 

Jóhann Páll segist í samtali við mbl.is ekki ætla að hrósa happi of snemma, en ákveðið verður á morgun hvort að atkvæði verði talin að nýju í Suðurkjördæmi eftir að yfirkjörstjórn þar barst beiðni um að slíkt yrði gert. Fari svo að atkvæði verði endurtalin í Suðurkjördæmi gætu jöfnunarþingsæti riðlast til að nýju. 

Haldist staðan óbreytt segir Jóhann Páll vera spenntur fyrir nýju hlutverki þó að tilfinningarnar séu blendnar; 

„Ef það rætist úr þessu – ég þori ekki að gefa mér það alveg strax – þá er mikill missir af Rósu Björk sem hefur verið einn sterkasti talsmaður mannréttinda og aukinnar róttækni í loftlagsmálum.“

Fari svo að Jóhann Páll setjist á þing á nýju kjörtímabili segir hann eftirfarandi vera honum ofarlega í huga;

„Ég ætla að berjast með kjafti og klóm fyrir jafnaðarstefnunni og fyrir því að Ísland sýni aukinn metnað í loftlagsmálum. Miðað við niðurstöður næturinnar þá veitir ekki af því að maður taki þessi mál svolítið upp á sína arma.“

Spurður út í þá óvissu sem nú er uppi varðandi jöfnunarsæti á Alþingi segir Jóhann Páll;

„Það þarf eitthvað að endurskoða þetta, það er alveg á hreinu. Eins þurfum við að koma á breytingum þannig að atkvæðavægi verði jafn, það eru bara mannréttindi. Það er ótrúleg rússíbana reið sem fylgir þessum jöfnunarsætum, hvað það þarf lítið til að allt riðlist. Ég þori ekki að taka þessu sem gefnu strax, ætla aðeins að anda með nefinu.“

mbl.is