Ræða ekki ráðherrastóla strax

Þingflokkur Vinstri grænna hittust í fyrsta skipti í dag á …
Þingflokkur Vinstri grænna hittust í fyrsta skipti í dag á kjörtímabilinu. mbl.is/Ari

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði Vinstri græn ekki ætla að ræða ráðherrastóla þegar formenn núverandi stjórnarflokka mæta til fundar á morgun.

Mbl.is náði tali af Katrínu í Alþingishúsinu í dag þegar nýr þingflokkur Vinstri grænna mætti til fundar, í fyrsta skipti á kjörtímabilinu. Þá ítrekaði hún ánægju sína með niðurstöður kosninganna.

„Kjarna sig“ í dag, málefnin á morgun

„Við erum nú bara að hittast til þess að svona aðeins kjarna okkur hérna,“ sagði Katrín en á morgun hittast ríkisstjórnarflokkarnir þrír í óformlegum stjórnarmyndunarviðræðum. 

Teljið þið eðlilegt að þú verðir forsætisráðherra áfram, öll árin?

„Það fyrsta sem við tölum um, allavega af okkar hálfu, eru ekki ráðherrastólar heldur málefnin. Við nálgumst þetta þannig og það verður það sem ég ræði á morgun, ekki ráðherrastólar. 

Ég mun þó, af gömlum vana, boða til fundarins á morgun,“ sagði Katrín á léttu nótunum.

mbl.is