Ræddi við Katrínu, Bjarna og Sigurð Inga

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Leiðtogarnir ráða ráðum sínum núna og við sýnum því fullan skilning ef fólk sem búið er að standa í annasamri kosningabaráttu í daga og vikur verði hvíldinni fegið í dag,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í samtali við mbl.is.

Það liggur fyrir að ríkisstjórnarflokkarnir þrír halda sínum meirihluta og gott betur. „Það er því engin þörf á, líkt og leit jafnvel út fyrir í síðustu viku, að ríkisstjórnin biðjist lausnar,“ segir Guðni.

Reynir ekki á stjórnarmyndunarumboð ef stjórnin heldur

Í morgun ræddi hann, símleiðis, við þau Katrínu Jakobsdóttur, Sigurð Inga Jóhannsson og Bjarna Benediktsson. Erindið var að ganga úr skugga um að áform þeirra stæðu enn, að ræða saman um samstarf sín á milli, héldi stjórnin meirihluta.

Nú taki við fundir innan flokka og viðræður milli flokka en Guðni telur ekki skynsamlegt að negla niður tímasetningar í þeim efnum. „Það liggur ekkert á, í sjálfu sér.“

Guðni, sem er á sínu öðru kjörtímabili sem forseti Íslands, upplifir alþingiskosningar úr sæti forseta, í þriðja skipti. Í þau skipti voru stjórnarmyndunarviðræður ansi stormasamar. 

„Staðan er gerólík núna því sem var uppi fyrr í minni kosningatíð, bæði 2016 og 2017. í þau skipti var staðreyndin sú að mynda þurfti nýja ríkisstjórn, nú er allt annað upp á teningnum. Fyrirmyndin gæti verið 1999 og 2003, þegar ríkisstjórnin hélt bara áfram. Þá reynir ekkert á stjórnarmyndunarumboðið og allt sem því fylgir.“

Þjóðin hefur talað og þjóðin er margradda

Aðspurður hvort hann telji niðurstöður kosninga benda til þess að sátt ríki meðal þjóðarinnar, segir Guðni:

 „Þjóðin hefur talað og þjóðin er margradda, við eigum átta flokka á alþingi en það er staðreynd, sem talar sínu máli, að þeir flokkar sem voru í ríkisstjórn á grundvelli meirihluta, héldu honum.“

Guðni segir það ekki falla innan hans verkahring að úrskurða sigurvegara kosninga en óskar öllum kjörnum fulltrúum til hamingju og velfarnaðar.  Einnig vill hann nota tækifærið og þakka þeim sem stíga af þingi, fyrir sín störf í þágu lands og þjóðar.

mbl.is