Saknar tveggja Sjálfstæðismanna

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Unnur Karen

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sofnaði með tölvuna í fanginu í morgun og vaknaði svo upp við „óvæntustu kosningaúrslit sem ég hef upplifað innan lands eða utan“ höfðu ekki breyst frá því um nóttina. Segir hann að úrslitin hafi komið sé mikið á óvart og að hann hafi aldrei upplifað eins mikinn mun á stemningu fyrir kosningar og varðandi niðurstöðurnar. Þetta kemur fram í færslu frá Sigmundi á Facebook.

Líkir hann niðurstöðu Miðflokksins við stöðu hollenska Lýðræðisflokksins, en að faraldurinn hafi breytt öllu. Sigmundur bendir á að flokkurinn hafi komið upp á svipuðum tíma í Hollandi og verið með svipaðar áherslur. Hafi hann fengið flesta kjörna fulltrúa í hollensku sveitarstjórnarkosningunum og verið með 20% fylgi fram að faraldrinum. „Eftir það sáu þeir vart til sólar og enduðu með 5% fylgi,“ segir Sigmundur og bætir við að hann hafi trúað því að Miðflokkurinn myndi sleppa við sömu örlög. „En svo var ekki.“

Segist Sigmundur hafa orðið fyrir vonbrigðum með niðurstöðuna, ekki síst vegna vinnu flokksfélaga sinna. Tekur hann þó fram að hann hafi orðið fyrir vonbrigðum með niðurstöðu tveggja þingmanna annars flokks. „Ég varð líka fyrir vonbrigðum með að tveir traustir prinsippmenn úr Sjálfstæðisflokknum sem hefðu haft góð og mikilvæg áhrif á Alþingi komust ekki inn.“

Ekki er víst til hverra hann vísar þar, en meðal þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem ekki fékk brautargengi í kosningunum núna var Brynjar Níelsson sem hafði setið á þingi frá árinu 2013.

mbl.is