Stolt af því að hafa haldið velli í „flokkakraðaki“

Halldóra Mogensen er sátt með niðurstöðuna þó að hún hefði …
Halldóra Mogensen er sátt með niðurstöðuna þó að hún hefði auðvitað viljað sjá enn betri tölur fyrir Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, segir að þó það séu vonbrigði að hafa ekki náð inn þingmönnum utan af landi sé það fagnaðarefni að flokkurinn hafi óvænt náð inn þremur þingmönnum í Reykjavíkurkjördæmi norður, þeirra á meðal af yngsta þingmanni sögunnar. 

Flokkurinn fundar nú innbyrðis um næstu skref en Halldóra segist telja að boltinn sé hjá ríkisstjórnarflokkunum hvað stjórnarmyndunarviðræður varðar. 

„Auðvitað eru það vonbrigði að við náðum ekki neinum þingmönnum utan af landi inn og misstum þingmanninn okkar á Suðurlandi. Í staðinn enduðum við algjörlega óvænt með þrjá í Reykjavík norður og hún Lenya Rún er náttúrulega yngst til þess að komast á þing svo það eru geggjaðar fréttir. Svo erum við bara stolt af því að hafa haldið velli í þessu flokkakraðaki. Það eru svo margir  flokkar að bjóða sig fram,“ segir Halldóra í samtali við mbl.is. 

Fjöldi kvenna gríðarlega mikið fagnaðarefni

Fjöldi kvenna á þingi er nú í sögulegum hæðum en hlutfallið hefur aldrei verið jafn hátt á nokkru þingi í gjörvallri Evrópu. Konur eru eftir alþingiskosningarnar í gær 52,38% þingmanna. Halldóra segir þetta „gríðarlega mikið fagnaðarefni.“

„Við horfum bara á ljósu punktana í þessu öllu saman,“ segir Halldóra en fylgi flokksins haggaðist varla á milli kosninga og stóð þingmannafjöldinn algjörlega í stað en þingmenn Pírata eru sex talsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert