Væri ekki Brynjari líkt að leggjast í kör

Brynjar Níelsson var í ágætis skapi þrátt fyrir allt.
Brynjar Níelsson var í ágætis skapi þrátt fyrir allt. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

„Ég ætla nú ekki að leggjast í kör. Það væri ekki mér líkt,“ segir Brynjar Níelsson, fráfarandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem náði ekki þingsæti í alþingiskosningunum í gær.

Hann var í ágætu skapi þrátt fyrir niðurstöður kosninganna þegar blaðamaður náði tali af honum um hádegisbilið. Brynjar á ekki von á því að skipta sér af pólitík af hliðarlínunni og gerir ráð fyrir að verða „heimavinnandi húsmóðir“ fyrst um sinn. 

„Það eru reyndar ekki allir sammála því að það verði eitthvað gagn af því en við látum á það reyna,“ segir Brynjar í samtali við mbl.is. Hann skipti um sæti við yngsta þingmann sögunnar, Lenyu Rún Taha Karim.

„Kannski sæki ég um vinnu hjá fjölmiðlum“

Hann var í þriðja sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður, sannkölluðu baráttusæti. 

„Ég fór nú bara að sofa tiltölulega snemma og var svo bara vakinn með leiðindum,“ segir Brynjar. Hann fékk fréttirnar beint í æð frá blaðamanni Vísis í morgun. 

Brynjar veit ekki alveg hvað tekur við en hann hefur setið á Alþingi frá árinu 2013. 

„Ég lifi í landi tækifæranna. Þá verður maður að skoða það hvaða tækifæri eru fyrir mann ef maður kann að nýta þau. [...] Kannski sæki ég um vinnu hjá fjölmiðlum, það er aldrei að vita.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert