„Búinn að vera rússíbani“

Jódís Skúladóttir.
Jódís Skúladóttir. Ljósmynd/Aðsend

Jódís Skúladóttir, sem var uppbótarþingmaður Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi í  alþingiskosningunum, vonar að möguleg endurtalning í Suðurkjördæmi hafi ekki áhrif á stöðu sína sem nýr þingmaður flokksins.

„Er á meðan er,“ segir hún. „Ég var nokkuð örugg varðandi þessar breytingar í Norðvesturkjördæmi sem höfðu áhrif á Suðurkjördæmi en það er spurning hvað gerist ef talið verður aftur í Suður.“

„Ótrúlega óheppilegt“

Hún segir það „ótrúlega óheppilegt“ að staðan sé eins og hún er núna varðandi endurtalninguna. „Fólk er komið inn og jafnvel búið að mæta á fundi en síðan fer af stað einhver halarófa þegar þetta kemur upp,“ segir Jódís, sem er lögfræðingur úr Fellabæ.

Jódís Skúladóttir ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra.
Jódís Skúladóttir ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Ljósmynd/Aðsend

Aðeins sjö atkvæði vantar upp á að Hólmfríður Árnadóttur, félagi Jódísar í VG, verði kjördæmakjörin í Suðurkjördæmi, að sögn Jódísar. 

„Þetta er búinn að vera rússíbani. Ég hef staðið fyrir ákveðnum málefnum sem ég held að sé mikilvægt að halda á lofti. Ég held að það sé mikill styrkur í því, sérstaklega fyrir mitt kjördæmi, að ég verði inni, til að standa vörð um mín málefni,“ greinir hún frá og nefnir þar til sögunnar umhverfis- og loftslagsmál, jafnréttismál, samgöngumál og byggðamál.

Ekki inni fyrr en klukkan 9 

Spurð út í kosninganóttina segir hún að strax í byrjun hafi verið ljóst að landslagið yrði öðruvísi en spár sögðu til um. Spennan hafi verið gríðarlega mikil og hún hafi ekki verið inni fyrr en klukkan rúmlega 9 um morguninn. Svefn kom því ekki til greina fyrr en niðurstaðan lá ljós fyrir.

Frá kosningavöku Vinstri grænna. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fylgist spennt með …
Frá kosningavöku Vinstri grænna. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fylgist spennt með gangi mála. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jódís kveðst að vonum spennt fyrir því að starfa á Alþingi. Hún hefur setið í sveitarstjórn í Múlaþingi í eitt ár og fundið sig mjög vel á pólitíska vettvangnum.

Innt eftir næstu skrefum segir hún mörg verkefni framundan. Þingflokksfundur var haldinn í gær þar sem farið var yfir stöðuna, enda þurfi að mynda starfhæfa ríkisstjórn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert