Framkvæmd kosninga sé hafin yfir vafa

Katrín Jakobsdóttir í Stjórnarráðinu í dag.
Katrín Jakobsdóttir í Stjórnarráðinu í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Leiðtogar ríkisstjórnarflokkanna þriggja, sem funduðu í Stjórnarráðinu í dag, ætla að nýta þessa viku til að fara yfir málin. Næsti fundur verður á morgun.

Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að loknum fundinum á RÚV. Hún sagði ekki tímabært að ræða um ráðuneyti heldur hafi fyrst og fremst verið farið yfir stóru viðfangsefnin fram undan.

Hún sagði ekki tímabært að ræða hvað Vinstri græn muni sætta sig við í áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarfi, enda formlegar viðræður ekki komnar af stað.

Þarf að komast til botns í framkvæmdinni

Spurð út í vandann varðandi talningu atkvæða sagðist hún leggja áherslu á að öll framkvæmd kosninganna sé hafin yfir vafa og að mjög mikilvægt sé að komast til botns í framkvæmdinni í Norðvesturkjördæmi. Einnig sagði hún það góða ákvörðun að telja aftur í Suðurkjördæmi.

Spurð nánar út í óvissuna í tengslum við þessi mál sagði hún að breytingar hafi verið gerðar á kosningalögum sem taka gildi um næstu áramót og snúa þær meðal annars að skýrleika í framkvæmd og skýrleika kæruleiða. Vandinn núna sýni að breytingarnar voru góðar og nauðsynlegar.

Hún sagði það verkefni landskjörstjórnar að gera tillögu til kjörbréfanefndar Alþingis um framhaldið. Þess vegna þurfi að bíða eftir greinargerð landskjörstjórnar.

Spurð hvort það gæti þurft að kjósa aftur sagðist hún ekki geta tjáð sig um það fyrr en álit landskjörstjórnar er komið í ljós en sagði það fræðilegan möguleika. Bætti hún við að verið sé að vinna hratt og örugglega í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert