Ísland stökk úr 28. sæti í það sjöunda

Inga Sæland, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Katrín Jakobsdóttir eru á …
Inga Sæland, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Katrín Jakobsdóttir eru á meðal kvenna í forystu á Alþingi. Samsett mynd

Alls 30 konur voru kjörnar til Alþingis í kosningunum á laugardag. Lengi vel leit út fyrir að konurnar yrðu 33 en eftir endurtalningu í Norðvesturkjördæmi fækkaði þeim um þrjár. Þá leit út fyrir að konur yrðu í fyrsta skipti í meirihluta á Alþingi og að Ísland yrði með þriðja besta hlutfall kvenna á þjóðþingi í heiminum. Svo varð ekki en hlutfall kvenna á Alþingi er nú 47,7%, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Þrátt fyrir að þrjár konur hafi dottið út var þetta kosningasigur fyrir konur, sem eru nú jafn margar og þær voru á Alþingi árið 2016. Ísland er einnig með hæsta hlutfall kvenna á þjóðþingi í Evrópu og náði 7. sæti á lista IPU Parline sem tekur saman gögn um öll þjóðþing heims. Þar situr Ísland fyrir ofan Svíþjóð og munar 0,7% á ríkjunum. Íslandi stökk þar upp úr 28. sæti og því um mikla breytingu að ræða.

Silja Bára Ómarsdóttir, doktor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir að það sé jákvætt að hlutfall milli karla og kvenna á þingi sé nú aftur orðið jafnara. Hún segir að betur megi ef duga skuli og stefna eigi að því að konur komist í meirihluta eins og útlit var fyrir í gærmorgun.

Í kosningum árið 2017 náðu aðeins 24 konur kjöri og var því hlutfall kvenna 38,1%. Á milli kosninga hefur hlutfallið því hækkað um tæp 10%. Silja bendir á að þó að fleiri konur hafi náð kjöri í kosningunum þýði það ekki sjálfkrafa að stjórnmálin verði feminískari eða eitthvað betri en áður.

„Konurnar koma víða að úr hinu pólitíska litrófi. Stóri vendipunkturinn er að nú eru konur sjö af sextán þingmönnum Sjálfstæðisflokksins en voru fjórar af sextán á síðasta kjörtímabili,“ segir Silja Bára.

Hún telur að handaflsaðgerðir annarra flokka síðastliðin 20 ár, þar sem reglur voru settar um hlutfall kvenna eða kynjareglur, hafi skapað þá tilfinningu hjá öðrum flokkum að það sé ekki boðlegt að stilla upp framboðslistum þar sem ekki eru fulltrúar fjölbreyttra hópa.

Ekki megi vanmeta fyrirmyndaráhrifin. Konur, þá sérstaklega innan íhaldsflokka, hafi sætt sig við að vera aftar á listum en komist samt inn vegna stærðar flokksins. Nú hafi konur áttað sig á að þær þyrftu að vera ofar til þess að komast inn vegna þess að flokkarnir eru með minna fylgi en áður.

Silja Bára Ómarsdóttir.
Silja Bára Ómarsdóttir.

Reykjavíkurkonur flestar

Athygli vekur að hlutfall kvenna í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur er hærra en í hinum kjördæmunum. 73% þingmanna í Reykajvík suður eru konur og 55% í Reykjavík norður. „Þar eru vinstri flokkarnir almennt sterkari, vinstriflokkar sem eru með markvissar reglur, jafnvel forgangsreglur fyrir konur. Uppstillingin hjá Sjálfstæðisflokknum hafði líka áhrif þar sem kona leiddi annað kjördæmið,“ segir Silja.

Annað er uppi á teningnum í Suðvesturkjördæmi þar sem níu karlar komast inn og aðeins fjórar konur. „Það kemur mér aðeins á óvart en þar er Sjálfstæðisflokkurinn sterkur og þar var bara ein kona í efstu fimm sætunum. Mér finnst skrítið að Suðvesturkjördæmi sé svona ólíkt Reykjavíkurkjördæmunum, en styrkur Sjálfstæðisflokksins er mikill þar og uppstillingin hafði áhrif,“ segir Silja. Í landsbyggðarkjördæmunum er kynjahlutfallið hæst 50% í Norðausturkjördæmi en lægst í Norðvesturkjördæmi þar sem 38% eru konur. Í Suðurkjördæmi eru 40% þingmanna konur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert