Margir kallaðir en fáir útvaldir

Sigurður Ingi Jóhannsson og Bjarni Benediktsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson og Bjarni Benediktsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eitthvað var um símhringingar milli ríkisstjórnarflokkanna í gær, en eiginlegar þreifingar um framhald á stjórnarsamstarfinu eru ekki hafnar. Velflestir nýbakaðir þingmenn reyndu að sofa út í gær, en síðan var tekið til skrafs og ráðagerða innan flestra flokka, þar sem rædd var bæði sókn og vörn, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Gengið er út frá því sem vísu að fyrst verði látið reyna á að endurnýja núverandi stjórnarsamstarf, enda virðast flestir sammála um það – bæði í stjórn og stjórnarandstöðu – að kosningaúrslitin feli fyrst og fremst í sér stuðningsyfirlýsingu meirihluta kjósenda við ríkisstjórnina.

Forystumenn ríkisstjórnarinnar töluðu enda mjög á þann veg á seinni hluta kosningabaráttunar, að ríkisstjórnarsamstarfið væri eitt kosningamálanna og gengu raunar nokkuð langt í því samhengi, þótt þeir gleymdu sjaldnast hefbundnum yfirlýsingum um að vitaskuld gengju þeir óbundnir til kosninga. Stöku stjórnarþingmenn, jafnvel ráðherrar, gáfu þó eitt og annað til kynna um að annars konar samstarf kæmi til greina eða væri jafnvel æskilegt.

Katrín Jakobsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þreifingar í dag

Það má telja næsta víst að eiginlegar þreifingar um áframhaldandi stjórnarsamstarf Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna hefjist í dag. Stjórnarþingmaður, sem Morgunblaðið ræddi við, taldi að það ætti að geta gengið hratt fyrir sig, formenn stjórnarflokkanna þekktust orðið vel og milli þeirra ríkti gagnkvæmt traust.

Hins vegar er ljóst að stjórnarsamstarfið heldur ekki bara áfram sisona, allir hafa formenn flokkanna þriggja haft á orði að semja þurfi um nýjan stjórnarsáttmála sem endurspegli bæði það sem mætti afgangi á liðnu kjörtímabili og helstu kosningaáherslur flokkanna á síðustu vikum.

Við blasir að um það allt eru flokkarnir ekki á eitt sáttir í öllum málum, þó einnig sé bent á að í mörgum málaflokkum ríki samstaða um það sem koma skal. Eflaust verður þó eitthvað þráttað um forgangsröð og fjárveitingar.

Metnaður Sigurðar Inga

Hið vandasamasta verður án nokkurs vafa hvernig flokkar skipta með sér verkum í ríkisstjórn.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, getur með réttu vísað til stóraukins þingstyrks flokks síns og að hið aukna umboð flokksins frá kjósendum þurfi að endurspeglast við ríkisstjórnarborðið.

Þingmenn, sem blaðið ræddi við, telja að Sigurður Ingi muni hreyfa þeirri hugmynd að hann verði forsætisráðherra. Hitt sé annað mál hversu mikil alvara sé þar að baki, slík krafa geti nýst honum í öðrum samningum um skiptingu ráðuneyta.

Framsókn hafi að mörgu leyti verið „þögli félaginn“ í ríkisstjórnarsamstarfinu en geti nú gert auknar kröfur af nýjum metnaði, sem fylgi kosningasigrinum.

Talið er að Vinstri græn felli sig ekki við aðild að ríkisstjórn nema Katrín Jakobsdóttir verði áfram forsætisráðherra. Því til stuðnings er bent á miklar persónuvinsældir hennar, sem nái langt út fyrir raðir stuðningsmanna flokks hennar. Þar fyrir utan er rætt um að nú styttist aftur í kjarasamnninga, sem viðbúið er að reynist erfiðir. Þá kunni að skipta sköpum að hafa vinstrimann í forsætisráðuneytinu.

Ekki er útilokað að samstarfsflokkarnir fallist þau rök, „en það mun kosta,“ eins og einn viðmælenda blaðsins orðaði það.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert