Vill gera menntamálum hærra undir höfði

Diljá Mist Einarsdóttir.
Diljá Mist Einarsdóttir.

Diljá Mist Einarsdóttir fór á sinn fyrsta þingflokksfund í morgun sem nýr þingmaður sjálfstæðismanna í Reykjavíkurkjördæmi norður.

„Það var ótrúlega gaman að taka þátt í honum og mikill samhljómur í hópnum. Þetta er flottur hópur og þarna eru gömul andlit og ný,“ segir Diljá Mist, spurð út í fundinn.

Hún hefur verið varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins auk þess að starfa sem aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra og kveður hún ráðuneytið með söknuði.

Þingflokksfundur Sjálfstæðisflokksins í morgun. Diljá Mist er önnur frá hægri.
Þingflokksfundur Sjálfstæðisflokksins í morgun. Diljá Mist er önnur frá hægri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Spurð út í hennar helstu baráttumál á þingi segist hún vilja leggja áherslu á margt, þar á meðal menntamál.

„Ég er formaður skólanefndar í Borgarholtsskóla og hef verið að vinna við þennan málaflokk og á börn í grunnskóla. Þetta er málaflokkur sem mætti gera hærra undir höfði í umræðunni. Mér fannst áhugavert að heyra það frá kjósendum að þeim finnst þessi málaflokkur oft vera út undan,“ greinir hún frá.

Hún kveðst að vonum hæstánægð með að hafa náð kjöri á þing og þakkar fyrir traustið. Kosninganóttin hafi verið mjög löng en virkilega skemmtileg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert