Fínasta samtal en kosningar marka nýtt upphaf

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Unnur Karen

Formenn stjórnarflokkanna hafa gert hlé á fundarhöldum sínum í Ráðherrabústaðnum en ætla að hittast aftur eftir hádegi.

„Þetta er fínasta samtal og það kemur svo sem ekkert á óvart í þessum hópi með það. Það breytir því ekki að kosningar marka nýtt upphaf. Þetta er nýtt verkefni og við þurfum aðeins að gefa okkur tíma í það,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Hún segir formennina ætla að gefa sér þessa viku til að ræða stóru línurnar, bæði verkefnin sem eru framundan í samfélaginu og pólitískar áherslur flokkanna, hvað er hægt að sammælast um og hvað getur valdið ágreiningi.

Heldur forsetanum upplýstum 

Spurð hvort hún ræði reglulega við forseta Íslands um stöðu mála segist hún ætla að halda honum upplýstum í vikunni. „Við áttum samtal strax eftir kosningar og hann veit af því hvað planið er.“

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikilvægt að allt sé uppi á borðum

Hvað varðar endurtalningu atkvæða í Suðurkjördæmi sem hafði í för með sér sömu niðurstöðu og áður segir hún mjög gott og mikilvægt að eyða allri óvissu með það. Hún bíður eftir því að fá greinargerð frá landskjörstjórn en ekki eru allar skýrslur um framkvæmd talningar komnar í hús.

„Ég ber fullt traust til þess að landskjörstjórn muni fara vel yfir þetta eins og þau eru búin að leggja upp með. Aðaláherslan mín er á að það sé allt uppi á borðum þannig að það sé algjörlega tryggt að fólk beri fullt traust til framkvæmdar kosninganna,“ segir Katrín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert