Kærur vegna talningar fara ekki fyrir Hæstarétt

Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi Hæstaréttardómari.
Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi Hæstaréttardómari. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kærur vegna talningar atkvæða í Norðvesturkjördæmi fara ekki fyrir Hæstarétt, heldur koma þær einungis til meðferðar Alþingis, sem sker úr um gildi þingkosninga komi upp vafi þar um. 

Eitthvað hefur borið á því að fólk telji að Hæstiréttur hafi endanlegt ákvörðunarvald um gildi þingkosninga, sem þarf ekki að vera óeðlilegt, enda er úrskurður Hæstaréttar frá 2011 um ólögmæti kosninga til stjórnlagaþings mörgum enn í fersku minni.

Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, segir að það standi skýrum stöfum í kosningalögum að Alþingi skeri úr um gildi þingkosninga og því fari það með úrskurðarvald í þeim kærum sem bornar hafa verið upp í tengslum við endurtalningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi. 

„Það er ákvæði um það í kosningalögum, ef upp kemur ágreiningur um lögmæti kosninga og þess háttar, að þá er það Alþingi sem leysir þar úr,“ segir Jón Steinar við mbl.is og vísar til 22. kafla kosningalaga

Sitt sýnist hverjum

Jón Steinar segir svo að menn geti velt vöngum yfir því hversu heppilegt það er að Alþingi skuli sjálft úrskurða um mál sem geti haft þær afleiðingar að skipan þingsæta breytist.

Í yfirstöðnum kosningum vann Framsóknarflokkurinn t.a.m. ákveðinn kosningasigur og því má vel ímynda sér að flokkurinn vilji ekki gera eitthvað sem gæti hróflað við því, svo dæmi sé tekið. 

Annað dæmi væri Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, sem vill ólmur að niðurstöður úr Norðvesturkjördæmi miðist við það hvernig þær voru áður en endurtalning fór fram í kjördæminu. Það er kannski ekki skrýtið, þar sem hann var inni á þingi áður en talið var aftur, en var svo ekki lengur inni á þingi eftir að endurtalningin hafði farið fram.

„Það sker pínulítið í augu að sá aðili, sem verið er að kjósa fulltrúa til, skuli fara með úrslitavald. En svona er þetta nú í lögunum og það eru sjálfsagt sjónarmið á bak við þetta sem snúa að aðskilnaði valdþátta ríkisins, að þá sé það Alþingi eða löggjafarþingið sem hefur endanlegt vald um þau mál er lúta að því og vali þess. Það eru auðvitað alveg gildar ástæður,“ segir Jón Steinar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert