Niðurstöður helstu kannana nálægt úrslitum

Bornar eru saman niðurstöður síðustu könnunar við úrslit kosninganna.
Bornar eru saman niðurstöður síðustu könnunar við úrslit kosninganna. Skjáskot/Gallup

Almennt voru niðurstöður helstu viðhorfskannana sem gerðar voru rétt fyrir nýafstaðnar alþingiskosningar nokkuð nærri úrslitum kosninganna.

Kannanafyrirtækið Gallup bendir á þetta í tilkynningu. Segir þar að þegar nýjasta könnun fyrirtækisins, sem birt var föstudaginn 24. september, sé borin saman við niðurstöður kosninga sjáist að meðalfrávik í könnun Gallup sé aðeins 1,2 prósentustig.

Fjallað var sömuleiðis um þetta á síðu 4 í Morgunblaðinu í gær.

Stígandi hækkun hjá Framsókn

„Þegar eingöngu eru skoðaðir þeir flokkar sem buðu fram á landsvísu er meðalfrávikið örlítið hærra, eða 1,3 prósentustig, og 1,4 prósentustig ef aðeins eru skoðaðir þeir flokkar sem fengu yfir 1% fylgi. Þetta teljast lítil frávik og er meðalfrávik Gallup lægst af þeim kannanafyrirtækjum sem birtu kosningakannanir nú fyrir kosningar,“ segir í tilkynningunni.

„Síðustu daga mælingar Gallup kom fram stígandi hækkun á fylgi Framsóknarflokks en mælingin fór ekki fram síðasta sólarhringinn fyrir kosningar. Þessi hækkun flokksins endurspeglaðist í úrslitum kosninga.“

26-29% ákveðið sig á kjördag

Svipað mynstur megi sjá hjá einhverjum hinna flokkanna þó það sé ekki jafn greinilegt.

Einnig er bent á að mælingar Gallup hafi áður sýnt að stórt hlutfall kjósenda ákveði á kjördag hvaða flokk það kýs.

„Í kosningamælingum Gallup undanfarið hafa á bilinu 26-29% kjósenda ákveðið sig á kjördag. Það er því ljóst að breytingar geta orðið á viðhorfi fólks frá því síðasta könnun er gerð og þar til kosið er. Leiða má líkum að því að meiri breytingar geti orðið á hug kjósenda eftir því sem flokkar í framboði eru fleiri og liggja nær hver öðrum málefnalega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert