Skærgrænn litur yngdi Framsókn upp

Flokkarnir eyddu miklu í auglýsingar fyrir nýafstaðnar alþingiskosningar.
Flokkarnir eyddu miklu í auglýsingar fyrir nýafstaðnar alþingiskosningar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það er mikill munur á notkun samfélagsmiðla í dag og fyrir síðustu kosningar, svo ekki sé talað um enn lengra aftur,“ segir Sigurður Svansson, markaðsstjóri hjá Sahara. Fyrirtækið sérhæfir sig í samfélagsmiðlum og markaðssetningu á netinu og fylgdist náið með kosningabaráttunni fyrir nýafstaðnar alþingiskosningar. Sahara greindi til að mynda hversu háum fjárhæðum flokkarnir eyddu í auglýsingar á Facebook og Instagram.

„Samkeppnin á samfélagsmiðlum er alltaf að verða meiri og meiri. Notendur gera meiri kröfur um að það efni sem þeir fá á „feedið“ sitt sé þess virði að skoða það. Efni sem er of auglýsingakennt mun fá minni svörun en það efni sem vekur eftirtekt og áhuga fólks. Það er erfitt að gera þetta rétt og það er sérstaklega erfitt að gera það á stuttum tíma,“ segir Sigurður og vísar til þess að kosningabaráttan stóð ekki nema í örfáar vikur.

Samantekt Sahara á því hvað flokkarnir eyddu í auglýsingar á Facebook og Instagram sýnir að Flokkur fólksins eyddi mestu eða um 4,6 milljónum. Miðflokkurinn eyddi litlu minna, en Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn voru á svipuðu reki með 2,8 milljónir og 2,6 milljónir. Umræddar tölur miðast við aðalsíður flokkanna og gefa því góða vísbendingu um umfangið. Þær eru hins vegar síður en svo tæmandi enda geta flokksfélög í hverju kjördæmi fyrir sig einnig keypt auglýsingar á samfélagsmiðlum. Eins ná þær ekki til allra samfélagsmiðla. Þá er vitaskuld ekki horft til umtalsverðra auglýsingakaupa í dagblöðum, á vefsíðum og í útvarpi og sjónvarpi.

Sigurður Svansson, markaðsstjóri Sahara.
Sigurður Svansson, markaðsstjóri Sahara.

„Þetta var í fyrsta sinn sem samfélagsmiðlar voru mikilvægasti miðillinn í kosningum hér og því er erfiðara að áætla umfangið. Mér sýnist þó ljóst að allir flokkar hafi eytt tugum milljóna. En þótt samfélagsmiðlar séu mikilvægir sýna rannsóknir í markaðsmálum samt að því fleiri ólíka miðla sem þú setur skilaboðin í, þeim mun áhrifaríkari verða þau. Á sama tíma þurfa skilaboðin að vera trúverðug og ríma við langtímaskilaboð viðkomandi flokks,“ segir Andrés Jónsson almannatengill. Hann tekur sem dæmi að Framsóknarflokkurinn hafi verið með framleiddar sjónvarpsauglýsingar með einföldum skilaboðum sem keyrðar hafi verið á Youtube og víðar. Ein slík hafi til að mynda fengið 150 þúsund áhorf á Youtube sem verði að teljast afar gott. „Á sama tíma var Miðflokkurinn til dæmis með Sigmund á Mbl.is og Vísi að segja einhverja fimm eða sex ólíka hluti. Það virkaði ekki og í lokin fóru þeir aftur að tala um hvað hann gerði á árunum 2013-2017,“ segir Andrés.

Miðflokkurinn mokaði út auglýsingum

Sigurður hjá Sahara segir greiningu fyrirtækisins sýna að flokkarnir hafi farið fremur rólega af stað en í annarri viku september hafi farið að hitna í kolunum. „Þá fór til dæmis Miðflokkurinn á algert flug og byrjaði að moka út auglýsingum. Á tímabili var flokkurinn með um 300 virkar auglýsingar í gangi. Það passar við niðurstöður kosninganna að þú vinnur ekki alltaf með því að auglýsa meira. Það þarf líka að vanda til verka þar.“

Andrés Jónsson almannatengill og eigandi Góðra samskipta.
Andrés Jónsson almannatengill og eigandi Góðra samskipta. mbl.is/Styrmir Kári

Hann segir að Flokki fólksins og Framsóknarflokknum hafi aftur á móti tekist vel upp. „Herferð Flokks fólksins var góð. Hún var aðeins öðruvísi en flestir voru að gera. Það sem stendur mest upp úr við Framsóknarflokkinn er slagorðið þeirra. Það rammar velgengnina svolítið inn; flokkurinn nær til þeirra sem eru óákveðnir og vita ekki hvað þeir eiga að kjósa. Þá finnst þeim greinilega langöruggast að fara fyrir miðju. Sá sem dreif baráttu flokksins áfram var hins vegar Ásmundur. Þegar upp er staðið eru það einstaklingarnir sem bera uppi árangurinn.“

Sigurður segir jafnframt að hann hafi haft gaman af litanotkun í auglýsingum. „Framsókn hélt í sinn græna lit en leyfði sér að fara líka í skærgrænan lit og bleikan. Það yngdi upp þennan gamla formfasta flokk.“ Hann segir að skæru litirnir hafi verið áberandi í auglýsingum á LED-skiltum sem nú má sjá um allt á höfuðborgarsvæðinu, bæði á strætóskýlum en einnig stórum skiltum við umferðargötur. „Þar eru stór andlit og skærir litir til að ná eftirtekt. Skæru litirnir grípa meira en jarðlitir.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »