Innsiglað alls staðar nema í Norðvesturkjördæmi

Kjörgögn í Norðvesturkjördæmi voru ekki innsigluð eftir upphaflega talningu atkvæða …
Kjörgögn í Norðvesturkjördæmi voru ekki innsigluð eftir upphaflega talningu atkvæða í kjördæminu. Það var hins vegar gert í öllum öðrum kjördæmum á landinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Yfirkjörstjórnir allra kjördæma nema Norðvesturkjördæmis innsigluðu kjörkassa eða talningarsal þegar talningu atkvæða lauk í kjölfar þingkosninganna síðastliðinn laugardag. 

Þannig er yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis nokkuð sér á báti þegar kemur að meðferð kjörgagna eftir að talningu lauk. 

Þetta kemur fram í skýrslum, sem yfirkjörstjórnir allra kjördæma sendu landskjörstjórn í vikunni. 

Talningarsal læst en hvorki innsigli á kjörgögnum né salnum 

Í skýrslu Norðvesturkjördæmis segir um meðferð kjörgagna: „Þegar hlé var gert á fundi yfirkjörstjórnar á sunnudagsmorgun voru kjörgögn varðveitt í sal á Hótel Borgarnesi þar sem talningin fór fram. Við innganginn í salinn eru öryggismyndavélar.“ Undir greinargerð skýrslunnar skrifar Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis. 

Kjörgögnin voru hins vegar ekki innsigluð fyrr en eftir að umdeild endurtalning fór fram. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hafði endurtalning í kjördæminu mikil áhrif á uppröðun jöfnunarþingsæta og olli það miklu fjaðrafoki. 

Ingi Tryggvason hefur sagt að mannleg mistök hafi orðið til þess að úrslit úr kjördæminu breyttust eftir að endurtalning fór fram. 

Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi.
Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi. Ljósmynd/Dómsmálaráðuneytið

Lengst var gengið í Suðvesturkjördæmi

Eins og fyrr segir voru kjörkassar ætíð innsiglaðir í öðrum kjördæmum eftir að talningu lauk og talningasalir gjarnan líka. Þannig má sjá, á skýrslum hverrar yfirkjörstjórnar fyrir sig, hversu langt var gengið í viðvíkjandi kjördæmi til þess að koma í veg fyrir að einhver kæmist í kjörgögnin. 

Einna lengst var gengið í Suðvesturkjördæmi þar sem kjörgögn voru geymd í læstri geymslu og var geymslan innsigluð af yfirkjörstjórn. Kjörgögnin sjálf voru einnig innsigluð inn í þessari læstu, innsigluðu geymslu og var m.a.s. skipt um lás á geymslunni sem yfirkjörstjórn hafði ein lykil að.

Af skýrslu yfirkjörstjórnar Suðvesturkjördæmis má dæma að þessi háttur hafi verið hafður á vegna hefðar um meðferð kjörgagna í kjördæminu. Sú staðreynd er athyglisverð í samanburði við orð Inga Tryggvasonar í Norðvesturkjördæmi, sem áður hefur sagt að það sé hefð í Norðvesturkjördæmi að innsigla ekki kjörgögn að talningu atkvæða lokinni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert