Vill áfram gegna embætti forsætisráðherra

Katrín Jakobsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er tilbúin til þess að halda mínu hlutverki áfram,“ sagði Katrín­ Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra í Kastljósi kvöldsins, spurð hvort hún gengi út frá að leiða næstu ríkisstjórn. Hún segir að stjórn­ar­mynd­un­ar­viðræður snúist nú um að búa til nýjan stjórnarsáttmála.

Formenn ríkisstjórnarflokkanna þriggja komu saman til fundar í Ráðherrabústaðnum í  Tjarnargötu í Reykjavík klukkan tíu í morgun. Auk þeirra var Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri boðaður á fundinn til að ræða ríkisfjármál. 

„Við höfum verið að fara yfir bæði stöðu ríkisfjármála og efnahagsmála. Þar er það nú svo að það er ýmislegt jákvætt sem er að leggjast með okkur,“ segir Katrín og nefndi lítið atvinnuleysi og góð tíðindi úr sjávarútvegi.

„Auðvitað verður þetta samt brekka að fara út úr faraldrinum og byggja aftur upp.“

Horfir jákvæðum augum á stofnun hálendisþjóðgarðar

Eitt af stóru málum stjórn­ar­mynd­un­ar­viðræðnanna er stofnun hálendisþjóðgarðs en málið hefur verið efst á baugi Vinstri grænna. Katrín segir mikilvægast að breið sátt skapist um málefnið.

„Ég held að við höfum marga náttúruverndarsinna á Alþingi Íslendinga og ég held að það séu margir náttúruverndarsinnar í stjórnarflokkunum. Ég trúi því að við getum þegar við leggjum okkur fram um það fundið einhverjar jákvæðar lausnir á þessu.“

Spurð hvort hún telji eðlilegt að Framsóknarflokkurinn geri kröfu um meira pláss við ríkisstjórnarborðið vegna góðs gengi í kosningunum segir Katrín það vel mega vera. „Ég held að það geti verið skynsamlegt um margt að færa frekari verkefni.“

Katrín segir að flokkarnir ætli að gefa sér góðan tíma í viðræður en vildi ekki gefa nánar upp hversu langan tíma það tæki. „Við munum gefa okkur þann tíma sem þarf til þess að vanda til verka.“

mbl.is