Fjórar kærur vegna alþingiskosninganna

Fjórar kærur hafa borist dómsmálaráðuneytinu vegna alþingiskosninganna og er von …
Fjórar kærur hafa borist dómsmálaráðuneytinu vegna alþingiskosninganna og er von á fimmtu kærunni á næstu dögum. mbl.is/Árni Sæberg

Dómsmálaráðuneytinu hafa borist fjórar kærur vegna alþingiskosninganna. Þetta staðfestir Fjalar Sigurðarson, upplýsingafulltrúi ráðuneytisins í samtali við mbl.is. Þá er von á fimmtu kærunni á næstu dögum.

„Ég get staðfest að við höfum fengið fjórar kærur. Þrjár þeirra eru frá frambjóðendum sem hafa verið í fréttum nýlega, þ.e. Guðmundi Gunnarssyni, frambjóðanda Viðreisnar, Rósu Björk Brynjólfsdóttur, frambjóðanda Samfylkingarinnar, og Magnúsi Norðdahl, oddvita Pírata.“

Karl Gauti hyggst kæra til Alþingis

Fjórðu kæruna segir hann hafa verið áframsenda til ráðuneytisins frá lögreglu og að hún hafi komið frá ónefndum borgara. Sá aðili hafi m.a. kært innsiglismál, blýantanotkun og brot á jafnræðisreglu vegna kjördæmaskiptingar. Spurður segist Fjalar ekki kannast við að fleiri kærur vegna alþingiskosninganna séu komnar á borð ráðuneytisins.

Fimmta kæran sem um ræðir er frá Karli Gauta Hjaltasyni, frambjóðandi Miðflokksins. Hann hefur nú þegar kært til lögreglu en hyggst einnig kæra til Alþingis. Þetta staðfestir Karl í samtali við mbl.is.

„Það er bara verið að vinna í þessari kæru fyrir mig. Ég hef víst fjórar vikur til þess að kæra og það er ekki liðin nema vika síðan niðurstöður kosninganna lágu fyrir. Ég reikna nú samt með því að kæran verði lögð fram á næstum dögum.“

Landskjörstjórn kynnir greinargerð

Undirbúningskjörbréfanefnd kom saman í annað sinn klukkan eitt í dag á nefndarsviði Alþingis til að funda um málið. Fyrir fundinn koma fulltrúar landskjörstjórnar til að kynna greinargerð stjórnarinnar frá fundi hennar í síðustu viku. Þá munu lögfræðingar frá skrifstofu Alþingis mæta og kynna efni minnisblaðs um hlutverk og lagaramma undirbúningsnefndar og kjörbréfanefndar.

Rúv greindi fyrst frá.

mbl.is