Ríkisútvarpið brást

Ríkisútvarpið brást hlutverki sínu við kynningu á kosningamálum og ágreiningi framboðanna í alþingiskosningunum í fyrri viku, segir Kristján Guy Burgess, kosningastjóri Samfylkingarinnar, í þætti Dagmála um eftirmál kosninganna frá sjónarhóli stjórnarandstöðunnar.

Kristján Guy segir að almennir frambjóðendur, aðrir en formenn flokkanna, hafi ekki verið leiddir fram af Ríkisútvarpinu eins og vera bæri eða flestum fjölmiðlum öðrum raunar. Hann bætir við að í raun hafi Dagmál Morgunblaðsins verið eini vettvangurinn til slíks.

„Til hvers að setja fram mjög ítarlega og útfærða stefnu ef það er enginn vettvangur til þess að takast á við hina flokkana?“ spyr Kristján Guy. „Það var enginn staður þar sem frambjóðendur fengu að kljást. Það var hérna í Dagmálum, eini staðurinn þar sem venjulegir frambjóðendur fengu að takast á við frambjóðendur annarra flokka um þær hugmyndir sem þeir voru að bjóða fram í þessum kosningum.“

Hann minnir á að málefnaskrár flestrar framboða í alþingiskosningunum hafi verið frekar keimlíkar og því hafi enn meiri nauðsyn borið til þess að frambjóðendur hefðu vettvang til þess að eigast við um málefnamuninn og draga hann fram, svo að kjósendur gætu tekið upplýsta afstöðu til þeirra.

Sá vandi sé viðvarandi, eins og sjáist af því að fólk viti ekki um hvaða málefni sé verið að semja um í stjórnarmyndunarviðræðum.

Í þáttinn komu þau Sigurður Már Jónsson frá Miðflokki, Stefanía Sigurðardóttir frá Viðreisn og Kristján Guy Burgess frá Samfylkingu, gerðu upp kosningarnar og bollalögðu framtíðina.

Þáttinn allan má horfa á með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert