Birgir skilur við Miðflokkinn

Birgir Þórarinsson.
Birgir Þórarinsson. mbl.is/Sigurður Bogi

Birgir Þórarinsson hefur sagt skilið við Miðflokkinn og gengið til liðs við þingflokk Sjálfstæðisflokksins. Það gerðist í gærkvöld, en áður hafði hann greint Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, frá ætlan sinni.

Nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn því 17 þingmenn á Alþingi, en Miðflokkurinn aðeins tvo. Stjórnarmeirihlutinn hefur því 38 þingmenn.

Birgir segir í samtali við Morgunblaðið að hann hafi ráðfært sig við trúnaðarmenn Miðflokksins í Suðurkjördæmi áður en hann lét af því verða að ganga til liðs við sjálfstæðismenn. Þar á meðal við Ernu Bjarnadóttur, 2. mann á lista Miðflokksins í Suðurkjördæmi og varamann sinn á þingi, sem einnig færi sig um set, taki hún sæti á þingi.

Klausturmálið var kveikjan

Vistaskipti Birgis eiga sér nokkurn aðdraganda, þótt atburðarásin hafi verið hröð í þessari viku. Að sögn Birgis má rekja þau allt aftur til uppákomunnar á Klaustri um árið, en hann fordæmdi hana. Hann kveðst hafa vonað að um heilt hefði gróið síðan, en annað hafi komið í ljós. Hann hafi því að vandlega yfirveguðu ráði ákveðið að hann gæti ekki átt samleið með hinum þingmönnum Miðflokksins lengur.

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, staðfesti inngöngu nafna síns í þingflokkinn í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi. „Þingflokkurinn samþykkti beiðni Birgis Þórarinssonar um inngöngu samhljóða. Við fögnum því að sjálfsögðu að fá nýjan liðsmann, sem við þekkjum vel og þetta styrkir okkur í þeim störfum, sem fram undan eru,“ sagði Birgir.

Þá voru eftir tveir

Samkvæmt þingsköpum virðast þeir tveir þingmenn, sem eftir eru í Miðflokki, geta myndað þingflokk, þótt almenna reglan sé að þeir þurfi að vera þrír, enda geri þeir það „þegar að loknum kosningum“.

Birgir ritar grein í Morgunblaðið í dag um vistaskiptin, en jafnframt má lesa viðtal við hann um tildrögin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: